365 miðlar seldu rétt til sýninga á íslenskri knattspyrnu til fyrirtækisins Perfom á 400 þúsund evrur. Perform selur vefsjónvarpsaðgang að leikjum í efstu deild og bikarkeppni til veðmálahúsa út um allan heim. Þetta kemur fram í samrunaskrá vegna samruna Fjarskipta og 365 miðla sem birt var á vef Samkeppniseftirlitsins 10. maí síðastliðinn. Um er að ræða þá útgáfu sem birt var upprunalega og innihélt trúnaðarupplýsingar. Þar á meðal voru upplýsingar um erlenda veltu 365 miðla, sem einskorðast að mestu við ofangreindan samning við Perform.
365 miðlar hafa um nokkuð langt skeið verið með samning við KSÍ um sýningu á íslenskri knattspyrnu. Samningurinn var síðast endurnýjaður árið 2015 til sex ára. Hann felur bæði nafnarétt (samningur við Ölgerðina um að efstu deildir heiti Pepsí-deildin) og veðmálarétt, sem er umræddur samningur við Perform.
Í samrunaskránni segir að veðmálarétturinn sé nú í fyrsta skipti seldur áfram, til Perform. Í samrunaskránni segir: „Perform fær rétt á útsendingum og veðmálarétt úr íslenska boltanum um allan heim á gildistíma samnings 365 og KSÍ. Skipta þessir samningar verulegu máli við fjármögnun samningsins við KSÍ. Það er yfirlýst markmið 365 að stefna að því að sýna alla 132 leikina í efstu deild karla í beinni útsendingu í sjónvarpi og á vef. Myndefni nýtist sömuleiðis í sjónvarpsfréttir og veffréttir og margvíslegt dagskrárefni jafnt í sjónvarpi sem útvarpi byggir á íslensku knattspyrnunni s.s. Markaregn. Sýningarrétturinn nær til Íslandsmóts karla og kvenna, bikarkeppni karla og kvenna, Meistarakeppni KSÍ í karla og kvennaflokki sem og Deildarbikarkeppni KSÍ í karla- og kvennaflokki.“