Bandaríkjastjórn Donalds Trumps íhugar nú alvarlega að banna fartölvur í farþegarýmum flugvéla á öllum flugleiðum til og frá Bandaríkjunum. Frá þessu greindi John Kelly, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, í viðtali við Fox í gær.
Kelly segir hryðjuverkamenn einblína nú á að granda farþegaflugvélum, þá sérstaklega frá bandarískum flugfélögum þar sem farþegarnir eru flestir bandarískir. Þegar er bannað að taka með sér fartölvur, spjaldtölvur og önnur raftæki stærri en snjallsíma í farþegarými flugvéla frá tíu borgum í Mið-Austurlöndum og Afríku, en Kelly segir til greina koma að banna með öllu að taka með sér tölvur í farþegarými.
Þegar hefur verið greint frá því að stjórnvöld í Bandaríkjunum vilji leggja bannið á öll flug til og frá Evrópusambandsríkjum þar sem hryðjuverkaógnin sem þaðan kemur, að mati stjórnvalda í Bandaríkjunum, er veruleg um þessar mundir.
Kelly sagði stjórnvöld leita leiða til efla öryggi, meðal annars með nýrri tækni.
Ef til þessa banns kæmi myndi það hafa gríðarlega víðtæk áhrif á öryggisgæslu í flugi og einnig á breyta miklu fyrir fjölda farþega sem nýtir tölvu á flugleiðum, meðal annars til vinnu.