Davíð Þór Björgvinsson, Sigurður Tómas Magnússon og Ragnheiður Harðardóttir, voru þrjú hæfust að mati hæfisnefndar um mat á umsækjendum um starf dómara við Landsrétt. Davíð Þór var með einkunnina 7,35, Sigurður Tómas 6,775 og Ragnheiður 6,65, samkvæmt gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum og birt erum með fréttinni.
Fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem fjallað var um skipan dómara við Landsrétt lauk í kvöld án niðurstöðu, en einn þeirra sem metinn var meðal 15 hæfustu, Ástráður Haraldsson hrl., sagði tillögu ráðherra um skipan dómara, þar sem fjórar breytingar voru gerðar á mati hæfisnefndar, ekki vera í samræmi við lög. Undir þetta tók Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands.
Samkvæmt lista hæfisnefndarinnar var Ástráður Haraldsson númer 14 á listanum. Einn þeirra sem Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, gerir tillögu um að verði á meðal 15 dómurum við Landsrétt er Jón Finnbjörnsson en hann er númer 30 á lista hæfisnefndarinnar. Þá er Eiríkur Jónsson númer 7 á lista hæfisnefndarinnar, en hann er ekki á meðal þeirra 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara.
Fyrrnefndir Ástráður Haraldsson og Eiríkur Jónsson, ásamt Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni og Jóni Höskuldssyni hlutu ekki náð fyrir augum ráðherrans heldur þau Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson.
Þau 15 sem ráðherra gerir tillögu um í stöðu dómara við Landsrétt eru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.
Sigríður kom bæði á fund nefndarinnar í morgun og eftir hádegið. Minnihlutinn í nefndinni telur vafa leika á því að tillaga hennar um þá 15 einstaklinga sem skipa skulu stöður dómara við Landsrétt standist lög þar sem ráðherra leggur til að fjórir einstaklingar verði skipaðir sem ekki voru á lista hæfisnefndar yfir þá hæfustu til að gegna embætti dómara við Landsrétt.
Á meðal þeirra sem komu á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar voru formaður hæfnisnefndarinnar, Gunnlaugur Claessen, Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins og Ingibjörg Þorsteinsdóttir, varaformaður Dómarafélags Íslands.
Hér meðfylgjandi má sjá hvernig hæfisnefndin horfði til reynslu umsækjenda, og hvernig hún var metin.