Fasteigna- og leiguverð á höfuðborgarsvæðinu mun halda áfram að hækka á næstu misserum. Mikil spenna er á markaðnum og er takmarkað framboð meginskýringin, en fasteignaverð hefur hækkað hratt að undanförnu og nemur hækkunin meira en 20 prósentum á undanförnu ári.
Verðbólga mælist nú 1,7 prósent en hún væri neikvæð um 2,5 prósent, ef ekki væri fyrir hinar miklu hækkanir á fasteignamarkaði.
Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, bendir á að fasteignaverð hafi hækkað umtalsvert meira en leiguverð íbúðarhúsnæðis, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Því sé undirliggjandi þrýstingur á enn frekari hækkun leiguverðs.
Ari Skúlason, sérfræðingur hjá Landsbankanum, segir að vegna þessarar þróunar muni koma fram árgangar af ungu fólki á Íslandi sem eigi að jafnaði lítið eigið fé. Unga fólkið muni eiga erfitt með að kaupa húsnæði og leiguverð verða svo hátt að það geti lítið lagt fyrir.
Útlit sé fyrir að þessi staða verði áfram með þessari viðvarandi spennu, jafnvel þó uppbygging sé mikil víða á höfuðborgarsvæðinu.