Innflytjendur mæta öðrum hindrunum á Íslandi en í öðrum nágrannalöndum okkar, og þeim eru settar frekari skorður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í sjónvarpsþætt Kjarnans á Hringbraut í kvöld.
Umfjöllunarefni þáttarins eru innflytjendamál, en Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, er gestur þáttarins. Hann er annar tveggja þingmanna sem eru af erlendu bergi brotnir, og hann telur það skipta máli fyrir umræðuna.
Pawel segir Ísland setja innflytjendum frekari skorður en nágrannaríkin á nokkrum sviðum. „Það er bara dót sem fólk talar ekki mikið um,“ segir Pawel.
„Þessi krafa til dæmis um það í rauninni að hjúkrunarfræðingur eigi að vera með íslenskan ríkisborgararétt, í framkvæmd hefur verið slakað mjög á þessu en þetta er samt ennþá þannig í lögunum, þannig að það væri mjög auðvelt að fara til baka ef það yrði stefnubreyting. Það er einn hlutur.“
Annað dæmi sem Pawel tekur er um sjálfstæðan atvinnurekstur. „Mjög víða eru útlendingar, eða innflytjendur, mjög virkir í sjálfstæðum atvinnurekstri vegna þess að þeir mæta oft fordómum á hinum almenna vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera. Þess vegna spretta upp veitingastaðir eða annar rekstur, svona etnískur rekstur, en hér er í rauninni í lögum að þeim sem hafa tímabundið dvalar- eða atvinnuleyfi er óheimilt að greiða sér reiknað endurgjald.“
Þetta sé hindrun. „Þannig að það er ekki fyrr en menn eru búnir að vera á Íslandi í þrjú, fjögur ár og eru komnir með varanlegt dvalarleyfi sem þeir mega opna pítsastað, ef þeir eru frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta vita ekki margir og þetta er ekki þannig á hinum Norðurlöndunum.“