Farsælla er fyrir dómskerfið og réttaröryggi í landinu að Alþingi samþykki tillögu um að fresta skipan dómara í Landsrétt um mánuð svo að dómsmálaráðherra geti gert grein fyrir sínum sjónarmiðum, segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hóf fund sinn klukkan 10 í morgun, en nefndin fundaði meira og minna í allan gærdag vegna skipunar dómara við Landsrétt. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vék frá niðurstöðu sérstakrar hæfnisnefndar, og skipti út fjórum umsækjendum í tillögu sinni að dómaraskipuninni.
Jón Þór lét bóka á fundinum að sérfræðingar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi fengið á fundi sína hafi sagt að það myndi grafa undan trausti á dómskerfinu ef dómsmálaráðherra sýnir ekki að ákvörðun hennar sé reist á rannsókn um málið.
„Þar sem ráðherra hefur séð efni til að víkja frá áliti dómnefndar er óhjákvæmilegt eins og segir í dómi 412/2010 að ákvörðun hennar sé reist á rannsókn, þar sem meðal annars er tekið tillit til fyrirmæla ráðherra í reglum um störf dómnefndarinnar um það atriði varðandi umsækjendur sem ráða skulu hæfnismati, og tryggja að sérþekking njóti þar við í sambærilegu mæli og við störf dómnefndarinnar. Sérfræðingar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk á fund sögðu að annars myndi það grafa undan trausti á dómskerfinu. Farsælla er fyrir dómskerfið og réttaröryggi í landinu að Alþingi samþykki tillögu sem liggur fyrir nefndinni um að fresta skipun dómara í Landsrétt frá 1. júní til 1. júlí, til að gefa dómsmálaráðherra ráðrúm til að senda Alþingi rökstuðning sem fullnægir áðurnefndum dómi Hæstaréttar," segir í bókun Jóns Þórs.