Trausti Hafliðason hefur verið ráðinn ritstjóri Viðskiptablaðsins. Trausti hefur tveggja áratuga reynslu í fjölmiðlum og var meðal annars ritstjóri Blaðsins og fréttastjóri á Fréttablaðinu um árabil. Síðast var hann aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins. Hann tekur við starfinu af Bjarna Ólafssyni, sem gegnt hefur því starfi í þrjú og hálft ár, eða frá því að Björgvin Guðmundsson hætti til að kaupa almannatengslafyrirtækið KOM. Ásdís Auðunsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarritstjóri í stað Trausta.
Í frétt á vef Viðskiptablaðsins kemur fram að Trausti hafi meistaragráðu í blaðamennsku frá Háskólanum í Arizona. Trausti hefur starfað á Viðskiptablaðinu frá árinu 2013. Ásdís, sem er lögfræðimenntuð, hefur starfað hjá Viðskiptablaðinu í ríflega eitt ár. Áður starfaði hún við ýmis lögfræðistörf.
Þá hefur Kjarninn heimildir fyrir því að Svavar Hávarðsson, sem starfaði um árabil á Fréttablaðinu, hafi ráðið sig til starfa á Fiskifréttum, systurblaði Viðskiptablaðsins sem fjallar um sjávarútveg og tengd málefni.