Jón Höskuldsson héraðsdómari segir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra hafa farið á skjön við eigin rökstuðning og óskar eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis víki frá tillögu hennar varðandi skipun dómara við Landsrétt. Hann var einn þeirra sem dómnefnd taldi meðal fimmtán hæfustu umsækjendanna um dómaraembætti, en Sigríður tók hann af þeim lista ásamt þremur öðrum. Jón var metinn hæfari en allir þeir fjórir héraðsdómarar sem Sigríður gerir nú tillögu um að verði gerðir að dómurum í Landsrétti.
Jón skrifaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins andmælabréf, sem birt er á vefsíðu Alþingis. Þar bendir hann á að Sigríður hafi notað þann rökstuðning að reynsla dómara hafi ekki fengið það vægi sem tilefni sé til og gert sé ráð fyrir í reglum um störf dómnefndar.
Þá segir Jón að hann sé „tekinn út einn héraðsdómara án þess að finna megi ástæðu þessa í skýringum ráðherra.“ Hann hafi verið skipaður héraðsdómari 15. maí 2010, fyrir sjö árum síðan. „Meðal þeirra sem ráðherra gerir tillögu um er héraðsdómari sem skipaður var sama dag og undirritaður og hefur því gengt embætti héraðsdómara nákvæmlega jafn lengi,“ skrifar Jón. Þar á hann við Ásmund Helgason héraðsdómara, sem nefndin setti í 17. sæti í hæfismati sínu, en Sigríður hefur nú gert tillögu um að verði dómari.
Þeir Jón og Ásmundur voru skipaðir héraðsdómarar sama dag, líkt og Jón segir í bréfi sínu. Dómnefndin hafði þó talið Ásmund aðeins hærri hvað dómarareynslu varðar vegna setu hans í Félagsdómi frá árinu 2014, og eins máls þar sem hann var ad hoc dómari í Hæstarétti Íslands. Engu að síður taldi nefndin Jón heilt yfir hæfari en Ásmund – Jón var í 11. sæti hjá nefndinni og Ásmundur því 17.
„Breyting ráðherra á niðurstöðu dómnefndar er því öðrum þræði á skjön við eigin rökstuðning. Það leiðir hugann að því að önnur og ef til vill ólögmæt sjónarmið hafi ráðið mati ráðherra á hæfi umsækjenda. Í öllu falli er ljóst að skýringar ráðherra fara ekki saman við þá breytingu sem að mér snýr að því er varðar jafnlanga reynslu af störfum dómara en auk sjö ára reynslu sem héraðsdómari hef ég starfað í 14 ár við stjórnsýslustörf, 12 ár sem lögmaður.“
Þá telur Jón einnig aðfinnsluvert að ráðherra skuli gera breytingu á þeim matsþáttum sem fjallað er um í reglum um störf dómnefndar án þess að gefa umsækjendum kost á að tjá sig um slíka grundvallarbreytingu á hæfnismatinu.