Einar Ágústsson, oftast kallaður Kickstarter-bróðirinn í fjölmiðlum, var í dag dæmdur í þriggja ara og níu mánaða fangelsi fyrir fjársvik. Hann var ákærður fyrir að hafa blekkt fjóra einstaklinga með saknæmum hætti og fengið þá til að láta sér í té 74 milljónir króna. Þrotabú félags Einars, Skajaquoda ehf., mun ekki fá aðgang aftur að 74 milljónum króna sem embætti sérstaks saksóknara lagði hald á við rannsókn málsins. Þeir fjármunir renna til einstaklinganna sem Einar sveik. Frá þessu er greint á Vísi.
Kjarninn hefur undir höndum ákæru í málinu og greindi frá henni í mars. Í henni var Einari gefið að hafa svikið tugi milljóna króna af nokkrum einstaklingum með því að hafa „vakið og styrkt þá röngu hugmynd“ hjá þeim um að hann starfrækti fjárfestingarsjóð í Bandaríkjunum og tekið við fé af þeim til að fjárfesta.
Fénu ráðstafaði hann hins vegar, samkvæmt ákæru, í eigin þágu eða annars „með þeim hætti að ekki tengdist eða gat samrýmst ætluðum fjárfestingum“. Brotaþolarnir í málinu hafa ekkert endurheimt af því fé sem þeir töldu sig hafa verið að leggja inn í bandaríska fjárfestingarsjóðinn til fjárfestingar.
Einar var einnig ákærður fyrir meiriháttar brot gegn lögum um gjaldeyrismál með því að hafa í 18 tilvikum notað innstæður í íslenskum krónum, skipt þeim í erlendan gjaldeyri og látið senda þann gjaldeyri til útlanda með símgreiðslu. Greiðslurnar fóru inn á reikning erlends félags í hans eigu. Til þess að fá að gera þetta lét Einar sem að hann væri að greiða fyrir vöru og þjónustu. Vandamálið við þetta var að bæði kaupandinn og seljandinn voru í eigu hans sjálfs. Þegar viðskiptabanki Einars neitaði í eitt skiptið að framkvæma símgreiðslu framvísaði hann fölsuðum reikningi til að sýna fram á raunveruleika sýndarviðskiptana.
Ákæruvaldið taldi að fjármagnsflutningar Einars til Bandaríkjanna hafi tengst „hringstreymi fjármuna“ sem hafi skilað sér aftur til baka til Íslands. Endurkoma þeirra var í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, og þá með verulegri virðisaukningu. Þeir sem fengu að nota þá leið fengu að meðaltali 20 prósent virðisaukningu á það fé sem þeir komu með til landsins.