Forstjórar, fjárfestar og frumkvöðlar í Bandaríkjunum erum ósáttir við ákvörðun Donalds Trumps frá því í gær, um að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu, en ekki eru þó ljóst ennþá hvernig að því verður staðið.
Samkvæmt samkomulaginu er ekki hlaupið að því að yfirgefa það, eins og rakið var í grein Þrastar Freys Gylfasonar, stjórnmálafræðings, á vef Kjarnans í gær.
Forstjórar tæknirisana Apple, Alphabet (Google), Microsoft og Tesla Motors voru fljótir að tjá sig um ákvörðun Trumps, og sögðu hana engu breyta um það að fyrirtækin ætluðu sér að leggja sitt af mörkum til að markmið Parísarsamkomulagsins muni nást.
Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, ákvað að fara úr ráðgjafaráði Trump, þegar kemur að atvinnumálum og nýsköpun, um leið og ákvörðun hans lá fyrir. Hann sagði að ákvörðun væri slæm fyrir Bandaríkin og slæm fyrir heiminn allan. „Loftslagsbreytingar eru raunverulegar,“ sagði hann á Twitter svæði sínu.
Robert Iger, forstjóri Walt Disney, sagði sig einnig strax úr ráðinu, og mótmælti ákvörðun Trumps. Darren Woods, forstjóri Exxon Mobile, stærsta skráða olíufélags í heimi, sendi Trump bréf og bað hann um að halda Bandaríkjunum inn í Parísarsamkomulaginu.
Llyod Blankfein, forstjóri og stjórnarformaður Goldman Sachs, sagði ákvörðun Trumps ranga og að hún væri til þess fallin að grafa undan leiðtogahlutverki Bandaríkjanna í heiminum.
Flest þeirra fyrirtækja, sem þegar hafa ákveðið að vinna að því að ná markmiðum samkomulagsins, ætla engu að breyta, þrátt fyrir yfirlýsingu Trumps.
Þá sendu borgarstjórar 68 borga í Bandaríkjunum frá sér yfirlýsingu, þar sem þeir mótmæltu ákvörðun Trumps, og sögðust ekki ætla að breyta neinu í sinni vinnu. Markmiðið væri að ná fylgja Parísarsamkomulaginu og reyna að stuðla að umhverfisvænni lífstíl ti framtíðar litið.
Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu, og sagði Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra, í gær að ekkert yrði slegið af í vinnu stjórnvald á Íslandi, þegar kæmi að því ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.
Gagnvart Parísarsamkomulaginu hefur Ísland hengt sig á Evrópusambandið og tekur þátt í sameiginlegu markmiði aðildarríkja Evrópusambandsins um að vera búið að minnka losun frá Íslandi um 40 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 1990.