Fjórir umsækjendur um stöðu dómara við Landsrétt fengu einkunnina 9,5 fyrir dómarareynslu, í mati sérstakrar nefndar um mat á hæfi umsækjenda um dómarastöðuna, og fjórir fengu einkunnina 0, vegna engrar reynslu af dómarastörfum.
Einn umsækjandi fékk einkunnina 10 vegna lögmannsstarfa, og sex einkunnina 9.
Þetta er meðal þess sem má sjá í ítarlegum gögnum um mat á 33 umsækjendum um stöðu dómara við Landsrétt, sem Kjarninn hefur undir höndum, og birt eru með fréttinni.
Eins og Kjarninn hefur greint frá, þá voru Davíð Þór Björgvinsson, Sigurður Tómas Magnússon og Ragnheiður Harðardóttir með bestu einkunnina meðal þeirra umsækjenda sem metnir voru. Davíð Þór fékk einkunnina 7,35, Sigurður Tómas 6,7 og Ragnheiður 6,6.
Alþingi samþykkti í gær tillögu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um skipan 15 dómara við Landsrétt, með 31 atkvæði meirihlutans og 22 atkvæðum minnihlutans, en þingmenn Framsóknarflokksins, 8 talsins, sátu hjá. Áður hafði tillaga um að vísa málinu frá, og aftur til ráðherra - til að fá meira ráðrúm til að fara yfir gögn málsins og málsmeðferð - verið felld með minnsta mun í ágreiningi, 31 - 30. Svandís Svavarsdóttir, VG, og Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki, tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslunni sökum, tengsla við umsækjendur um stöðu dómara, en heildarfjöldi þingmanna er 63.
Dómararnir sem dómsmálaráðherra gerði tillögu um voru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.
Samkvæmt lista hæfisnefndarinnar var Ástráður Haraldsson hrl., sem hefur talið tillögu dómsmálaráðherra lögbrot - líkt og Lögmannafélag Íslands - númer 14 á listanum. Einn þeirra sem dómsmálaráðherra gerði tillögu um að yrði dómari við Landsrétt er Jón Finnbjörnsson en hann er númer 30 á lista hæfisnefndarinnar með heildareinkunnina 4,3.
Þá er Eiríkur Jónsson númer 7 á lista hæfisnefndarinnar, en hann er ekki á meðal þeirra 15 sem ráðherra gerði tillögu um í stöðu dómara. Eiríkur fær næsthæstu einkunn allra fyrir menntun og framhaldsmenntun, 9, á eftir fyrrnefndum Davíð Þór, sem fær einkunnina 10. Þá fær Eiríkur einnig næsthæstu einkunnina fyrir fræðistörf, 9, á eftir Davíð Þór, en hann er áberandi hæfasti umsækjandinn, að mati nefndarinnar.
Af þeim 15 hæfustu, að mati nefndarinnar, voru það Ástráður Haraldsson og Eiríkur Jónsson, ásamt Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni og Jóni Höskuldssyni, sem hlutu ekki náð fyrir augum ráðherrans, heldur þau Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson.
Á meðal þeirra sem komu á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar sem málið var til umfjöllunar í nokkra daga, voru formaður hæfnisnefndarinnar, Gunnlaugur Claessen, Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins og Ingibjörg Þorsteinsdóttir, varaformaður Dómarafélags Íslands.