Vöru-og þjónustujöfnuður mælist jákvæður um tæpa 8 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2017, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Eru þetta næstlægstu ársfjórðungstölur sem mælst hafa frá hruni, en viðskiptaafgangur var aðeins lægri á fyrsta ársfjórðungi 2016.
Afgangur mælist af vöru-og þjónustujöfnuði þegar meira er flutt út af vöru og þjónustu en flutt er inn. Munur á þróun þjónustuviðskipta og vöruviðskipta er greinilegur, en nettó-útflutningur á þjónustu hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum á meðan halli á vöruviðskiptum hefur aukist umtalsvert. Hækkun þjónustuútflutnings er að mestu leyti vegna vaxtar í ferðaþjónustu en aukinn vöruskiptahalla má líklega rekja til minnkandi aflaverðmæta í sjávarútvegi og stöðnunar í álútflutningi í kjölfar sterkara gengis.
Ef gengi þjónustujöfnuðar er skoðað á mynd 1 sést að árstíðabundnar sveiflur í þjónustujöfnuði hafa magnast samhliða auknu vægi ferðaþjónustu í útflutningi. Á sama tíma hefur raungengi íslensku krónunnar styrkst umtalsvert, en svo virðist sem styrkingin hafi enn lítil áhrif á fjölda ferðamanna.