Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra vill endurskoða reglur og fyrirkomulag við veitingu dómaraembætta. Þetta kemur fram í grein sem hún skrifar í Morgunblaðið. Hún segir ljóst að niðurstaða dómnefndarinnar hefði ekki hlotið brautargengi á Alþingi.
„Ráðherra varð það strax ljóst, eftir viðræður við forystumenn flokkanna, að niðurstaða dómnefndar um skipan dómara við Landsrétt myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi. Rökstuðningur ráðherra hefði þar engu breytt. Sjálfum fannst ráðherra niðurstaða nefndarinnar of einstrengingsleg.“ Hún segir að hún hafi gert sína tillögu um skipun dómara við Landsrétt „að virtum öllum sjónarmiðum sem máli skipta.“
Sigríður segir að í upphafi hafi virst ríkja „mikil og góð sátt um tillögu ráðherra.“ Það hafi svo breyst hvað stjórnarandstöðuflokkana varðaði. „Það kann að vera að vonbrigði þeirra sem höfðu verið á lista dómnefndar en ráðherra gerði ekki tillögu um, og þeim tengdra, hafi haft þar áhrif. Þá verður ekki fram hjá því litið að umræða í fjölmiðlum getur ært óstöðugan.“
Dómsmálaráðherra segir að reynslan af skipun dómara við Landsrétt gefi tilefni til þess að velta því fyrir sér hvort þingið sé í stakk búið til þess að axla þessa ábyrgð, og hvort það sé yfirleitt sanngjarnt að ætlast til þess af því með tilliti til hlutverks þess.
Í Fréttablaðinu í morgun er viðtal við Ástráð Haraldsson hæstaréttarlögmann, sem hefur ákveðið að fara í mál við ríkið vegna ákvörðunar Alþingis í málinu. Ástráður var einn af þeim sem dómnefndin taldi hæfasta en Sigríður skipti út í sinni ákvörðun.