Goldman Sachs hefur fest kaup á skuldabréfum að andvirði 2,8 milljarða Bandaríkjadala frá ríkisrekna venesúelska olíufyrirtækinu Petróleos de Venezuela SA (PdVSA) í gegnum miðlara í London, Dinosaur Group. Kaupverðið á skuldabréfunum, sem eru með gjalddaga árið 2022, var um 865 milljónir Bandaríkjadala sem þýðir að bréfin voru seld með 31% afslætti miðað við venesúelsk verðbréf með gjalddaga sama ár.
Julio Borges, leiðtogi þingsins sem er í höndum stjórnarandstöðunnar, brást við kaupunum með því að saka Goldman Sachs um að reyna að græða fjótlega peninga af þjáningu venesúelska fólksins og lagði til að lýðræðislega kjörin framtíðarríkisstjórn landsins ætti ekki að viðurkenna eða borga af þessum skuldabréfum. Stjórnarandstaðan í Venesúela hefur lengi hvatt Wall Street til að sniðganga ríkisstjórn Maduro og koma í veg fyrir áframhaldandi þróun í landinu. Hún fordæmir skilmála kaupanna og samþykkti nýlega tillögu í þinginu um að biðja bandaríska þingið hefja rannsókn á kaupunum.
Hvers vegna fjárfesta í skuldabréfunum?
Goldman Sachs er langt frá því að vera eini fjárfestirinn í venesúelskum skuldabréfum en sjóðir á borð við Fidelity Investments, BlackRock og HSBC Holdings hafa gert slíkt hið sama, sem og japanski fjárfestingabankinn Nomura sem keypti skuldabréf að andvirði um 100 milljónir Bandaríkjadala í sömu viðskiptum og veittu Goldman Sachs sinn skerf. Viðskipti í skuldabréfum ríkisrekna olíufyrirtækja eru meðal algengustu viðskipta í ört vaxandi marköðum, svokölluðum „emerging markets“, og eru þau aðlaðandi að hluta til vegna ríkisábyrgðar sem fylgir kaupunum.
Viðskipti í skuldabréfunum skila miklum skammtímahagnaði og ávöxtun af skuldum Venesúela var einn hæst allra allra ríkisskuldaskuldabréfa í síðustu viku eftir viðskipti Goldman Sachs, eða 8,39%. Möguleikar á miklum hagnaði til lengri tíma eru líka til staðar; það er ekki ólíklegt að Venesúela muni neyðast til að endurskipuleggja ríkisskuldir sínar á næstu árum og þótt að afleiðingar þess ferlis geta tekið langan tíma getur ávinningurinn orðið mikill. Til dæmis græddi fjárfestingarsjóðurinn Elliott Management um 400% á upphaflegu fjárfestingu sinni eftir uppgjör skuldabréfa sem hann átti í argentínskum skuldum, fimmtán árum eftir að Argentína gekk í gegnum greiðslufall árið 2001.
Viðskipti í skuldabréfum af þessu tagi eru algeng í eftirmörkuðum og með því að stunda þau eru fjárfestar ekki endilega beint að styrkja ríkisstjórnir í sjálfu sér. Það má færa rök fyrir því að aðgerðir fjárfesta gætu leitt til að lönd á borð við Venesúela lagi ríkisfjárhag sinn til lengri tíma litið og hafi því jákvæð áhrif. Þetta hugarfar kom greinilega í ljós í tilkynningu sem Goldman Sachs sendi frá sér í kjölfar gagnrýninnar en þar segir að bankinn viðurkenni að staðan í Venesúela sé flókin og að landið sé í krísu; hins vegar sé bankinn sammála um að lífskjör í landinu verði að batna og að fjárfestingin hafi að hluta til haft það að sjónarmiði.
„Hungursskuldabréf“
Skuldabréfin hafa verið kölluð „hungursskuldabréf“ af Ricardo Hausmann, hagfræðiprófessor í Harvard-háskóla og fyrrverandi skipulagsráðherra Venesúela, vegna þess að þau eru aðaltekjulind ríkisstjórnar Nicolás Maduro. Efnahagsstefna hans hefur leitt til matarskorts og skorts á nauðsynjavörum eftir því sem afborgun skulda og vaxta hefur verið sett í forgang í stað innflutnings á nauðsynjavörum. Hausmann hefur lagt til að fjárfestingabankinn JP Morgan Chase fjarlægi skuldabréfin úr Emerging Markets-vísitölu sinni sem er vinsæl hjá verðbréfasjóðum. Þannig væri hægt að skilja að fjárfestingar í skuldabréfunum og gera það að verkum að fjárfestar verði að taka meðvitaða ákvörðun um að styðja ríkisstjórn Maduro með því að kaupa þau.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) hefur spáð 720% verðbólgu í Venesúela í ár, hagkerfi landsins hefur minnkað um 27% á fjórum árum og rannsóknir sýna að þrír fjórðungar af íbúum landsins hafa lést um fjögur kíló að meðaltali vegna matvælaskorts og verðbólgu. Ungbarnadauði hefur aukist um 30%, mæðradauði um 65% og malaríutilfelli um 76%. Ofbeldisfull mótmæli hafa leitt til dauða 55 manns á undanförnum mánuðum, og Maduro tilkynnti nýlega áform um að breyta stjórnarskrá landsins og frestaði um leið fyrirætluðum kosningum í landinu til lok ársins.
Gagnrýnin á fjárfestum í tengslum við viðskipti á skuldabréfum ríkja í ástandi á borð við það sem Venesúela upplifir í augnablikinu verður að einhverju leyti að teljast réttmæt. Athyglin sem Goldman Sachs hefur fengið vegna kaupa sinna er sérstök vegna vægi, orðspors og stærðar fjárfestingabankans í alþjóðafjármálakerfinu en mætti jafn auðveldlega beina að öðrum fjárfestum. Hins vegar er meginvandamál Venesúela arfaslök efnahagsstefna og getuleysi ríkisstjórnar Maduro og þróun landsins í átt að einræði sem afleiðing þess að Maduro hefur ekki náð að viðhalda þeim lýðræðislega stuðningi sem einkenndi forvera hans í embætti, og hugmyndafræðilegs arkítekts venesúelanska stjórnarskrárinnar, Hugo Chávez. Togstreita í landinu og veruleikafirring ríkisstjórnarinnar virðist aukast með degi hverjum en ljóst er að Maduro getur ekki fjármagnað setu sína með þessum hætti endalaust. Fjárhagslegar horfur fjárfesta eru hins vegar að öllum líkindum bjartar hvernig sem úr rætist.