Fimm ríki í Mið-Austurlöndum hafa slitið stjórnmálasambandi við Katar. Ríkin fimm; Saudí-Arabía, Egyptaland, Bahrain, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Yemen, segja að stjórnvöld í Katar hafi stuðlað að óstöðugleika í svæðinu með því að styðja hryðjuverkasamtök á borð við Íslamska ríkið og Al-Kaída. Stjórnvöld í Katar hafa neitað þessum ásökunum staðfastlega. Í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér í morgun fordæmdu þau ákvörðunina og sögðu ekkert til í þeim ávirðingum sem á þau væru borin. Allt yrði gert til að hrinda tilraunum til að skaða samfélag og efnahag Katar. BBC greinir frá.
Samkvæmt fréttum sem borist hafa í nótt er búið að loka landamærum Saudí-Arabíu og Katar og yfirvöld í Riyadh, höfuðborg Saudí-Arabíu, hafa líka lokað á öll tengsl í sjó og lofti við nágrannaríkið. Egyptar hafa einnig meinað skipum og flugvélum frá Katar að nota hafnir eða flugvelli innan landamæra sinna. Óljóst er hvaða áhrif bannið mun hafa á starfsemi Qatar Airways, einu umsvifamesta flugfélags svæðisins, sem flýgur til yfir 150 áfangastaða víðs vegar um heiminn.
Öll ríkin sem um ræðir, þau fimm sem hafa nú slitið stjórnmálasambandi og Katar, eru nánir samstarfsaðilar Bandaríkjanna. Bandaríkjaher er til að mynda með tíu þúsund manna herstöð í Katar. Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var á ferð um svæðið fyrir um tveimur vikum ásamt Donald Trump, forseta landsins. Þeir héldu því staðfastlega fram að ferð þeirra hafi verið mikil sigurför en ósættið á milli bandamanna þeirra í Mið-Austurlöndum rímar ekki við þá söguskýringu. Tillerson hefur þegar hvatt ríkin til að jafna ágreining sinn og hefur boðist til að miðla málum.