Rússneskir tölvuhakkarar, á vegum leyniþjónustu rússneska hersins, reyndu ítrekað að hakka sig inn í kosningakerfið í Bandaríkjunum en árásunum linnti ekki fyrr en nokkrum dögum fyrir kosningarnar, 8. nóvember í fyrra.
Þetta kemur fram í skjali sem lekið var til vefsins The Intercept, en það var unnið á vegum Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA). Fjallað var um gögnin á vefnum í gær, en 25 ára gömul kona, Reality Leigh Winner að nafni, samkvæmt fréttavef CNN, hefur verið ákærð vegna lekans. Refsingin
Hún starfaði sem verktaki hjá Pluribus International Corporation í Georgíuríki, en ákæran er gefin út af saksóknara dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Í frétt CNN er hún sögð hafa viðurkennt að hafa lekið gögnunum við yfirheyrslu en hún var handtekin 3. júní síðastliðin.
Ritstjórn The Intercept, sem sérhæfir sig í fréttum um þjóðaröryggismál í Bandaríkjunum, segist hafa fengið gögnin nafnlaust og hafi því ekki upplýsingar um hver lak þeim.
Í gögnunum sést að tölvuárásirnar hafi verið framkvæmdar af leyniþjónustu rússneska hersins. Donald J. Trump Bandaríkjaforseti hefur fullyrt, ítrekað, að rússnesk stjórnvöld hafi ekki staðið fyrir neinum tölvuárásum í aðdraganda kosninganna í fyrra, og hefur kallað rannsóknir alríkislögreglunnar FBI, leyniþjónustunnar CIA, og tveggja þingnefnda Bandaríkjaþings, á tengslum Rússa við framboðs Trumps, nornaveiðar.
Framundan eru yfirheyrslur í Bandaríkjaþingi, þar sem þingnefndir munu spyrja út í tengsl tengsl rússneskra yfirvalda við framboð Trumps, og tölvuárásir á framboð Hillary Clinton. Meðal þeirra sem eru til rannsóknar hjá FBI eru Jared Kushner, tengdasonur Trumps og náinn ráðgjafi hans, Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps forseta og Jeff Sessions, núverandi dómsmálaráðherra.
Eins og kunnugt er þá rak Trump James Comey, sem var æðsti yfirmaður FBI, en hann mun koma fyrir Bandaríkjaþing í opna yfirheyrslu síðar í þessari viku.