Íslenska fyrirtækið Dattaca Labs hefur hafið samstarf við breska tæknifyrirtækið Digi.me um þróun í miðlun persónuupplýsinga milli fyrirtækja og einstaklinga, samkvæmt fréttatilkynningu. Samstarfið býður upp á spennandi tækifæri, sérstaklega í ljósi nýrrar löggjafar Evrópusambandsins um meðhöndlun persónuupplýsinga.
Dattaca Labs er íslenskt sprotafyrirtæki stofnað af Frey Hólm Ketilssyni og fjárfestinum Bala Kamallakharan. Fyrirtækið sérhæfir sig í miðlun persónuupplýsinga til fyrirtækja, meðal annars í heilbrigðistækni, fjármála-og fjarskiptaþjónustu auk þróunar í interneti hluta (e. Internet of Things). Digi.me. er enskt tæknifyrirtæki stofnað af Julian Ranger, en tilgangur þess er að safna og geyma persónuupplýsingar einstaklinga án þess að hafa aðgang að þeim.
Fyrirtækin binda miklar vonir við samstarfið, en það er fyrst um sinn hugsað um íslenskan markað. „Við erum sannfærð um að Ísland geti orðið leiðandi í byltingunni sem fram undan er í þessari tækniþróun” segir Julian Ranger, stofnandi Digi.me.
Íslendingar fyrstir með aðgang að stafrænum heilbrigðisupplýsingum
Í síðustu viku kom fram tilkynning um samstarf Dattaca Labs og Digi.me við Landlækni um opnun heilbrigðisupplýsinga Íslendinga. Þannig hafi Íslendingar orðið fyrsta þjóðin í heiminum þar sem íbúar þess eigi aðgang að stafrænum afritum af heilbrigðisupplýsingunum sínum. Þetta framtak fetar í fótspor Open Notes verkefnisins sem gefur 14 milljónum Bandaríkjamanna aðgang að heilbrigðisupplýsingunum sínum, en það verkefni hefur leitt til aukins heilbrigðis og minni heilbrigðisútgjalda samkvæmt rannsóknum.
Sóknarfæri vegna nýrrar löggjafar
Á næsta ári mun ný löggjöf Evrópusambandsins um persónuupplýsingar (EU GDPR) taka gildi, en markmið hennar er að skilgreina rétt einstaklinga að eigin persónuupplýsingum. Meðal breytinga sem löggjöfin hefur í för með sér eru auknar kröfur um samþykki einstaklinga fyrir vinnslu persónuupplýsinga, en samstarf Dattaca Labs og Digi.me felst meðal annars í því að miðla þessum upplýsingum til fyrirtækja á forsendum einstaklinganna. „Innleiðing þessarar reglugerðar er í rauninni grunnurinn að þessu samstarfi” segir Freyr Ketilsson, stofnandi Dattaca, í viðtali við Kjarnann.