Settur hefur verið á fót starfshópur innan Seðlabankans um útgáfu rafræns reiðufjár. Nefndar eru þrjár mögulegar leiðir við framkvæmd þess, en tekið er sérstaklega fram að það þýði ekki endalok hefðbundins reiðufjár. Þetta kemur fram í nýjasta riti Fjármálainnviða.
Samkvæmt Seðlabankanum hefur enginn seðlabanki tekið ákvörðun um að gefa út og veita almenningi aðgang að seðlabankarafeyri. Hins vegar er hugsanlegt að af því geti orðið en með hvaða hætti sé erfitt að spá fyrir um.
- Í fyrsta lagi gæti hann verið gefinn út með svipuðum hætti og sýndargjaldmiðillinn Bitcoin, eða með dreifða færsluskrá (e. distributed ledger technology). Seðlabankar í Hong Kong, Kanada og Englandi hafa þegar farið af stað með tilraunaverkefni í þessum efnum.
- Í öðru lagi gæti rafeyrir verið geymdur í einhvers konar rafrænum veskjum (e. E-wallets). Þar yrði rafeyrinn nafnlaus og myndi ekki bera neina vexti, þannig að það gegni sama hlutverki og reiðufé. Talið er að þessi útfærsla muni raska sem minnst virkri peningastefnu
- Í þriðja lagi gæti rafeyrir verið geymdur á skráðum greiðslureikningi sem yrði áhættulaus og að fullu tryggður af Seðlabankanum. Þessi útfærsla felur í sér talsverða áhættur af hálfu Seðlabankans og vekur einnig spurningar um hvort það ætti að vera hlutverk hans að veita almenningi lánsvexti
Enn á eftir að svara fjölmörgum spurningum um áhrif þess m.a. á framkvæmd peningastefnu, fjármálastöðugleika, greiðslumiðlunarkerfi, lagaumhverfi, neytendavernd og efnahagsreikning seðlabanka. Settur hefur verið á fót starfshópur innan bankans til að meta áhrif áðurnefnda þátta og kosti og galla fyrirkomulagsins.
Sýndargjaldmiðlar ekki það sama og rafeyrir
Seðlabankinn minnist á sérstaklega á sýndargjaldmiðla (e. Virtual currency), en þeir teljist ekki sem rafeyrir í lagalegum skilningi þar sem sýndargjaldmiðlar bera ekki með sér kröfu á hendur skilgreindum útgefenda. Viðskipti með sýndargjaldmiðla eru í sjálfu sér ekki ólögleg en þau njóta heldur ekki verndar gildandi laga um greiðsluþjónustu, útgáfu og meðferð rafeyris. Enn fremur segir Seðlabankinn að sýndargjaldmiðlar beri fremur einkenni áhættufjárfestingar en gjaldmiðils þar sem verðgildi er alls ótryggt frá einum tíma til annars.
Endalok reiðufjár?
Nokkur umræða skapaðist fyrr á þessu ári þegar Benedikt Jóhannson, fjármálaráðherra, velti því fyrir sér á facebook-síðu sinni hvort banna ætti að greiða út laun með reiðufé. Í kjölfarið skipaði ráðherra nefnd sem hefur það hlutverk að kanna möguleika á því að draga úr notkun reiðufjár hér á landi. Samkvæmt seðlabankanum myndi útgáfa rafeyris þó ekki leiða til endaloka reiðufjár á Íslandi. Í skýrslunni segir: „Hver sem niðurstaðan verður mun hefðbundið reiðufé (seðlar og mynt) lifa góðu lífi enn um sinn, eitt og sér eða í návist rafeyris útgefins af seðlabanka.”