Samstæða Haga, sem inniheldur Haga, Lyfju og Olís, velti rúmum 121 milljarði á síðasta rekstrarári. Félagið hefur brugðist við breyttu rekstrarumhverfi með því að loka verslunum og kaupa Lyfju og Olís. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur var nýverið.
Breytingar í rekstri samstæðu Haga má líta á sem viðbrögð við breyttu rekstrarumhverfi, en búast má við því að samkeppni aukist á dagvörumarkaði með komu Costco og fyrirhugaðri komu H&M til Íslands. Samstæðan hefur lokað sjö fataverslunum á síðasta rekstrarári, en búðarpláss félagsins minnkaði um um 19 þúsund fermetra á árinu. Hagar keyptu svo Lyfju í september á síðasta ári og Olís í mars , en við kaupin jókst velta félagsins um úr 81 í 121 milljarð, eða um tæplega 50%.
Í Kastljósi þann 1. júní kom fram að meðalarðsemi eigin fjár skráðra dagvörufyrirtækja sé um 11% í Bandaríkjunum og um 13% í Evrópu, en á Íslandi sé hún um 35-40%. Í samtali við Kjarnann segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, samanburð Kastljóss vera gallaðan þar sem Hagar eru eina skráða dagvörufyrirtækið á Íslandi. Þannig er eitt fyrirtæki borið saman við meðaltal margra fyrirtækja í Evrópu og Ameríku, en til eru fyrirtæki í báðum heimsálfum sem hafa jafnháa meðalarðsemi eigin fjár og Hagar.
Arðsemi eigin fjár Haga hefur lækkað úr 47,7% rekstrarárið 2011/2012 niður í 23,9% síðasta rekstrarár. Þar sem samkeppni mun aukast við komu tveggja fjölþjóðlegra fyrirtækja er mögulegt að meðalarðsemin muni að lækka hjá Högum í framtíðinni. Fjárfestar virðast einnig vera varkárir í kaupum í hlutabréfum á Högum, en á síðustu tveimur vikum hefur hlutabréfaverð þeirra lækkað um 6%.