Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, er með afar veika stöðu eftir þingkosningarnar í Bretlandi þar sem Íhaldsflokkurinn missti meirihluta á meðan Verkamannaflokkurinn, með James Corbyn í broddi fylkingar, styrkti stöðu sína og bætti við sig þingsætum.
Þegar staða 643 sæta af 650 liggur fyrir, þá er Íhaldsflokkurinn stærstur með 313 þingsæti en tapar 12 sætum á meðan Verkamannaflokkurinn er með 260 og bætir við sig 29, samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC.
Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) missir 21 þingsæti og fær 35 menn kjörna, samkvæmt stöðunni eins og hún er miðað við 643 þingsæti.
Frjálslyndir demókratar fá þá 12 þingmenn og fjölgar sætum þeirra á þinginu um fjögur.
Erfitt er að segja til um hvernig mál munu þróast og hvernig ríkisstjórn verður mynduð, en James Corbyn hefur þegar kallað eftir því að May segi af sér, og rými fyrir möguleika á myndun ríkisstjórnar sem þjóðin getur sætt sig við.
Til þess að ná sigri í kosningum og mynda meirihluta þarf 326 þingsæti, og því bendir allt til þess að samsteypustjórn verði mynduð.
May boðaði til þingkosninganna með skömmum fyrirvara í vor, og sagðist meðal annars vilja fá skýrara umboð til þess að leiða Bretland í samningaviðræðum við Evrópusambandið vegna útgöngu landsins úr sambandinu. Ljóst er að þetta markmið náðist ekki, og erfitt að segja til í hvaða farveg Brexit málið fer nú.
Pundið féll umtalsvert þegar fyrstu tölur birtust, sem bentu til taps Íhaldsflokksins.