Ísland vann Króatíu á Laugardalsvelli í kvöld 1-0 með marki Harðar Björgvins Magnússonar á síðustu mínútu leiksins. Um var að ræða sjötta leik beggja liða í undankeppni fyrir heimsmeistarmótið í knattspyrnu sem fer fram í Rússlandi á næsta ári. Eftir leikinn eru Króatar í efsta sæti riðilsins með 13 stig en Ísland er í öðru sætinu með jafn mörg stig en lakari markatölu. Næsti leikur Íslands er gegn Finnum úti 2. september.
Veðrið gott og Laugardalsvöllur auðvitað troðfullur. Þótt mælirinn sýndi 16 gráður var hins vegar að venju skítkalt í stærri stúkunni, enda skuggi yfir henni. En kaffið í blaðamannastúkunni var enn jafn dásamlega vont og veitingarnar að mestu búnar þegar leið að leik, þannig að það var óhjákvæmilegt að spara sér þau magavandræði.
Það er auðvitað hellingssaga milli þjóðanna tveggja á undanförnum árum. Króatar unnu Ísland í umspili um sæti á síðustu heimsmeistarakeppni með því að sigra heimaleik sinn 2-0, eftir markalaust jafntefli á Laugardalsvelli. Um miðjan nóvember 2016 mættust liðin svo í fyrri leik sínum í yfirstandandi undankeppni. Króatía vann þann leik 2-0. Ísland lék án nokkurra reglulegra byrjunarliðsmanna í þeim leik. Framherjarnir Kolbeinn Sigþórsson og Alfreð Finnbogason voru ekki með vegna meiðsla, eins og miðjumaðurinn Emil Hallfreðsson. Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður, spilaði heldur ekki en hann glímdi við sýkingu í fæti.
Liðið nú var heillegra, þótt Kolbeinn sé enn frá vegna meiðsla. Alfreð var með og bæði Birkir Bjarnason og Jóhann Berg Guðmundsson, sem glímt hafa við meiðsli eftir áramót, voru á sínum stað í byrjunarliðinu. Það vakti hins vegar athygli að Ari Freyr byrjaði ekki leikinn, þrátt fyrir að vera leikfær. Í hans stað byrjaði Hörður Björgvin Magnússon í vinstri bakverðinum. Þá spilaði Gylfi Sigurðsson í fremstu víglínu en ekki á miðjunni líkt og hann er vanur. Þess í stað lék Emil Hallfreðsson, sem hefur leikið mjög vel fyrir Udinese í efstu deild á Ítalíu, á miðsvæðinu ásamt Aroni Einari Gunnarssyni. Vörnin var að öðru leyti hefðbundin, þ.e. fyrir utan fjarveru Ara Freys.
Fyrir leikinn voru liðin tvö í efstu sætum I-riðils. Króatía á toppnum með 13 stig en Íslands í öðru sæti með 10 stig. Úkraína kom sér reyndar einu stigi fyrir ofan Ísland með 1-2 útisigri á Finnum fyrr í dag, en þá augljóslega með einum leik meira leiknum.
Pressað, hægt á og loksins skorað
Ísland byrjaði með látum og pressaði Króata framarlega á vellinum. Emil Hallfreðsson fór mikinn og náði að hleypa lífi í stúkuna með hálffæri og svo kröftugu hlaupi upp kantinn. Hvorugt skilaði þó neinu.
Fátt annað markvert gerðist framan af fyrri hálfleik. Íslendingar voru betri og héldu bolta vel. Liðið pressaði annað veifið og gerði það með miklum sóma. Þess á milli hægði liðið á leiknum þegar hentaði. Báðar þessar áherslur virtust henta Króötum illa.
Gylfi átti tvær hættulegar aukaspyrnur þegar leið á hálfleikinn. Hann skaut úr annarri og boltinn fór rétt fram hjá. Hin flaut glæsilega inn á svæðið milli markvarðar og varnar en einhvern veginn náði enginn íslensku leikmannanna sem voru í hlaupum að tengja.
Seinni hálfleikur hófst í takt við þann fyrri, Ísland með frumkvæðið en lítil markverð hætta sem skapaðist við hvorugt markið. Það breyttist á 55 mínútu þegar Perisic áttu hættulega fyrirgjöf sem mætt var á markteig af Kalinic en boltinn fór rétt fram hjá. Íslendingar brunuðu upp völlinn og Birkir Bjarnason átti líklega hættulegasta skot liðsins fram til þessa, en það fór líka rétt fram hjá.
Leikurinn breytti aðeins um takt þegar líða tók á síðari hálfleik og Króatar fóru að taka meira og meira yfir samhliða því að íslenska liðið varð þreyttara. Á 66 mínútu áttu þeir hættulegt langskot sem Hannes Þór Halldórsson þurfti að hafa sig allan við til að verja.
Við tók hræðilegur, eða dásamlegur, kafli þar sem ekkert gekk á báða bóga. Mikið af háum og löngum boltum, misheppnuðum sendingum og tæpum tæklingum. Ísland átti svo góða skyndisókn á 79 mínútu en Gylfi skaut yfir úr þröngu færi eftir að hafa verið tíaður upp af Jóhann Berg Guðmundssyni. Gylfi átti annað ágætisfæri undir lok leiks en inn vildi boltinn ekki. Jóhann Berg fékk dauðafæri undir lok leiks sem markvörður Króata varði í horn. Úr horninu skoraði svo Hörður Björgvin Magnússon, af öllum mönnum, sigurmarkið.