Stjórmálaflokkur Emmanuel Macron, forseta Frakklands, vann stórsigur í fyrri umferð þingkosninga í gær. Sósíalistaflokkur fyrrverandi forseta beið sögulegt afhroð.
Þegar 97 prósent atkvæða voru talin úr öllum umdæmum leit út fyrir að frambjóðendur fyrir flokk Macrons, La République en Marche, myndi ná 28 prósent atkvæða í neðri deild þingsins, sem myndi gera hann að stærsta stjórnmálaflokki Frakklands. Ef sú er raunin er forsetinn í sterkri stöðu til að koma frjálslyndum kosningaloforðunum sínum í gegnum þingið.
Sósíalistaflokkur Francoise Hollande, fyrrverandi Frakklandsforseta, hlaut algjört afhroð, en sætafjöldi Sósíalista mun að öllum líkindum lækka úr 277 sætum niður í 15-40 sæti, eða 9%. Fylgi Þjóðfylkingar Marine Le Pen stóð einnig í stað í um 13%, en búist var við því að hún myndi ná betri niðurstöðum.
Dræm kjörsókn einkenndi kosningarnar, en hún var einungis 49%. Til samanburðar var kjörsóknin 57% árið 2012 og 60% árið 2007.