Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins koma á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á þriðjudag, en til stendur að ræða sölu á hlut íslenska ríkisins í Arion banka hf. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þingi var frestað 1. júní síðastliðinn en þrjár nefndir þingsins funda þó í vikunni.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, segir nefndina hafa fylgst náið með sölunni. „Frá því salan átti sér stað hefur efnahags- og viðskiptanefnd fylgst með málinu og Fjármálaeftirlitið var hjá okkur á opnum fundi á sínum tíma. Fjármálaráðherra hefur komið til okkar tvisvar af þessu tilefni,“ segir hann.
Áður hefur Morgunblaðið greint frá því að uppnám sé í söluferlinu enda hafi einn kaupenda, vogunarsjóðurinn Och-Ziff Capital, fengið óformlega ábendingu frá Fjármálaeftirlitinu, þess efnis að ekki væri víst að sjóðurinn myndi hljóta náð fyrir augum FME sem virkur eigandi.
Spurður hvort spurningar nefndarmanna beinist sérstaklega að þessum anga sölunnar, segir Óli Björn að þessi þáttur málsins sé ekki tilefni fundarins. Hann segir málefni fjármálakerfisins skipta almenning miklu máli. „Ég held að þetta mál skipti alla máli, viðskiptavini Arion banka, starfsmenn Arion banka og allan almenning, að það sé allt opið og uppi á borðum þegar kemur að eignarhaldi í íslenskum fjármálafyrirtækjum. Það á við um Arion banka eins og öll önnur fjármálafyrirtæki,“ segir Óli Björn í samtali við Morgunblaðið.
Och-Ziff er einn stærsti eigandi Kaupþings, en að undanförnu hefur staða sjóðsins versnað verulega og lánshæfiseinkunn færð í ruslflokk, auk þess sem fjárfestar hafa tekið fé frá sjóðnum í stórum stíl, eins og Kjarninn greindi frá í byrjun mánaðarins.
Aðrir eigendur Arion banka eru Kaupskil ehf., félag í eigu Kaupþings, sem á 57,9 prósent hlut, íslenska ríkið 13 prósent, vogunarsjóður í eigu Taconic Capital Advisors 9,9 prósent, Attestor Capital LLP 9,9 prósent og Goldman Sachs 2,6 prósent.