Ástráður Haraldsson hefur stefnt íslenska ríkinu vill að ákvörðun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um að leggja ekki til að hann yrði skipaður í stöðu dómara við Landsrétt verði ógild og jafnframt eða til vara að ógilt verði sú ákvörðun að leggja til við forseta Íslands að stefnandi veðri ekki meðal þeirra 15 sem skipaðir voru í starf dómara við Landsrétt. Þetta kemur fram í stefnu sem Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Ástráðs, hefur sent Kjartani Bjarna Björgvinssyni héraðsdómara í dag. Kjarninn birtir stefnuna í heild sinni hér.
Í henni er þess einnig krafist að skaðabótaréttur verði viðurkenndur og að íslenska ríkið greiði Ástráði eina milljón króna í miskabætur. Þá er farið fram á að ríkið greiði allan málskostnað. Farið hefur verið fram á flýtimeðferð í málinu.
Ástráður var einn þeirra fjögurra sem dómnefnd hafði úrskurðað hæfasta til að vera skipaðir í réttinn, en dómsmálaráðherra ákvað að víkja af lista sínum svo hún gæti skipað fjóra aðra.
Í stefnu Ástráðs segir að hann byggi kröfu sína um ógildingu einkum á því að Sigríður hafi við undirbúning „hinnar umdeildu ákvörðunar bæði brotið gegn málsmeðferðar- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins.“ Meginreglan um skipan í dómarastarf byggist á faglegu hæfnismati dómnefndar og öll frávik „frá því mati þurfi að byggja á sérstökum rökstuðningi, brýnum og gagnsæjum ástæðum, sem og vandaðri meðferð til undirbúnings ákvörðun. Geðþótti ráðherra og sjónarmið valin að hentugleikum í hvert sinn mega aldrei ráða. Tryggt þarf að vera að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið og málsmeðferð þarf að vera til þess falllin að tryggja að svo verði.“
Ástráður álitur að tillaga Sigríðar um hverja ætti að skipa í Landsrétt, og meðferð hennar á Alþingi sem hafi farið eftir „einföldum flokkspólitískum línum“ sýni að engin af þeim kröfum sem gerðar séu til slíkrar ákvörðunar hafi verið framfylgt. „Tillaga ráðherra var þvert á móti lítt undirbúin, rannsókn uppfyllti ekki kröfur stjórnsýslulaga og rökstuðningur var ófullnægjandi, almenns eðlis. Rökstuðningur ráðherra veitti engar upplýsingar um hvers vegna þeir 4 umsækjendur sem voru meðal hinna 15 hæfustu samkvæmt mati dómnefndar voru það ekki að mati ráðherra. Raunar er ekkert á þá minnst í rökstuðningi ráðherra.“
Í stefnunni kemur enn fremur fram að ekki sé ljóst til hvaða þátta dómsmálaráðherra vísaði til í rökstuðningi sínum fyrir að breyta röðun umsækjenda frá því sem nefndin hafði mælt með og að svo virðist sem að Sigríður leggi til grundvallar að aðrar kröfur en almennt hæfi séu frávíkjanlegar. Ráðherra geti valið í hvert og eitt sinn hvernig hann stendur að vali dómara. „Það stenst ekki. Sérlega langsótt er að ráðherra teljist eiga einhvers konar frjálst mat við veitingu dómarastarfa og hafa dómstólar fyrir löngu hafnað slíkri ráðagerð.“
Bent er á að þótt ráðherrann hafi sagt að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu að 24 af umsækjendunum 33 væru hæfastir samkvæmt hennar mati hafi það ekki verið tilgreint hverjir þeir 24 séu, utan þeirra 15 sem hún tilnefndi og þeirra fjögurra sem færðir voru af tilnefningarlistanum. Engin rökstuðningur hafi verið settur fram fyrir því hvers vegna þeim fjórum umsækjendum sem hlutu ekki náð fyrir augum ráðherrans var vikið til hliðar, né hvers vegna aðrir voru taldir hæfari en þeir. „Sé tekið mið af hinum óljósu sjónarmiðum um dómarareynslu virðist ekki rökrétt að taka Jón Höskuldsson af listanum. Þá eru aðrir í hópi ráðherrans með jafnmikla eða minni dómarareynslu en Eiríkur Jónsson. Ekki er útskýrt hvers vegna áratugareynsla stefnanda sem lögmanns, kennara og fræðimanns er látin þoka fyrir mun fábreyttari og skemmri reynslu annarra.“
Allt beri þetta að þeim brunni að „hinn fábrotni rökstuðningur ráðherrans stenst ekki skoðun og er með öllu ófullnægjandi grundvöllur fyrir því að vikið sé frá mati dómnefndar.“