Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að það sé með öllu óviðunandi hversu lengi það taki að laga ójöfn hlutföll milli kynja í íslensku atvinnulífi. Hún segir það hafa sýnt sig að það þurfi róttækar aðgerðir, til dæmis með breytingu á lögum, til að koma breytingum í gegn. Dæmi um slík eru lög um lágmarkshlutfall kynja í stjórnum stærri fyrirtækja og jafnlaunavottun. Katrín segir að það þurfi mögulega að skoða hvort það þurfi að breyta lögum um lífeyrissjóði í ljósi þess að nær allir helstu stjórnendur þeirra,sem sýsla með gríðarlegt fjármagn og völd, séu karlar.
Þetta kemur fram í sjónvarpsþættinum Kjarnanum sem frumsýndur er á Hringbraut í kvöld klukkan 21:30. Viðfangsefni þáttarins er ójöfn staða kynjanna í íslensku viðskiptalífi. Katrín er viðmælandi í síðari hluta þáttarins.
Kjarninn hefur síðastliðin fjögur ár gert úttekt á stöðu kvenna á meðal æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og –miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða. Úttektin nær til æðsta stjórnanda hvers fyrirtækis eða sjóðs. Niðurstaðan í ár, samkvæmt úttekt sem framkvæmd var í febrúar 2017, er sú að æðstu stjórnendur í ofangreindum fyrirtækjum séu 88 talsins. Af þeim eru 80 karlar en átta konur. Það þýðir að 91 prósent þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlar en níu prósent konur.
Katrín segir í þætti kvöldsins að íslenskur fyrirtækjakúltúr virðist vera mjög karlægur. „Það hlýtur að vera umhugsunarefni í ljósi þess að maður heyrir þær sögur líka innan úr atvinnulífinu að það að hafa jafnt hlutfall karla og kvenna við borðið er að skila sér í betri ákvörðunum, breyttu vinnulagi og nýjum starfsháttum. Þannig að ég ætla að leyfa mér að trúa því að þessi árangur muni koma en auðvitað er það algjörlega óviðunandi hvað þetta tekur langan tíma.“
Katrín segir að peningavaldið sé það vald samfélagsins sem sé faldara en önnur, og fái minni umfjöllun í fjölmiðlum en t.d. hið pólitíska vald. Þar séu fjölmiðlar með sterkara kastljós á því sem stjórnmálamenn eru að gera, eftir því er tekið þegar kynjahluföllin eru skökk og meiri pressa skapast á að laga þau. „Þessi hlutföll innan fjármálageirans, þau fá ekki sama vægi[...]En auðvitað er þetta algjörlega óásættanlegt.“
Þetta verður síðasti þáttur Kjarnans fyrir sumarfrí.