Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og áhrifamaður innan Viðreisnar, segir að mesta hættan sem sé til staðar í ríkisstjórnarsamstarfi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við Sjálfstæðisflokkinn sé að sá síðastnefndi nái saman með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum í því breiða samtali um nokkur höfuðmál íslenskra stjórnmála sem fram undan sé. Bæði Framsókn og Vinstri græn hafi „staðið jafn fast eða jafnvel fastar gegn kerfisbreytingum en Sjálfstæðisflokkurinn“. Flokkarnir komist ekki hjá því að svara hvert hugur þeirra stefnir í þeim efnum á næstu mánuðum eða misserum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein sem Þorsteinn skrifar á Kjarnann í dag.
Þorsteinn Pálsson var lengi ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn undir lok síðustu aldar, meðal annars forsætisráðherra árin 1987 til 1988. Þá var hann formaður Sjálfstæðisflokksins árin 1983 til 1991. Hann tilkynnti hins vegar í september í fyrra, í aðdraganda kosninga, að hann hefði gengið til liðs við Viðreisn. Þorsteinn bauð sig þó ekki fram fyrir flokkinn en hefur verið áhrifamikill á bak við tjöldin. Þorsteinn var svo gerður að formanni þverpólitískrar nefndar sem á að leggjast yfir tillögur um gjaldtöku í sjávarútvegi í maí síðastliðnum.
Í greininni fer Þorsteinn yfir það sem hann telur að hafi breyst með nýrri ríkisstjórn. Að hans mati hafa Viðreisn og Björt framtíð náð mun meiri árangri en tal stjórnarandstöðunnar um flokkanna gefur til kynna. Stór mál hafi komist á dagskrá og önnur nálgun hafi orðið í lykilmálum sem bregðast þurfti við, eins og t.d. sjómannaverkfallinu og þeim aðstæðum sem sköpuðust við lokun á vinnslu HB Granda á Akranesi. Þorsteinn segir þó að vissulega hefði ríkisstjórnin geta haldið betur á ýmsum málum. Hann nefndir sérstaklega til sögunnar þá ákvörðun að neita minnihlutanum á Alþingi um lengri tíma til að skoða í þingnefnd tillögur um skipan dómara í Landsrétt.
Þorsteinn segir að með hæfilegri einföldun má segja að við myndun þessarar stjórnar hafi Sjálfstæðisflokkurinn aðeins farið fram á skattalækkanir en óbreytt ástand að öðru leyti í stjórnarmyndunarviðræðunum sem leiddu af sér ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. „Viðreisn og Björt framtíð vildu setja á dagskrá breytingar í landbúnaðarmálum, nýjar hugmyndir um veiðileyfagjöld, róttæka endurskipan á gjaldmiðils- og peningamálum og þjóðaratkvæði um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Allir flokkarnir voru sammála um að auka áherslu á heilbrigðismál.“
Það sem helst skeri í augu í stjórnarsamstarfimu séu kröftugar og ítrekaðar yfirlýsingar þingmanna og jafnvel ráðherra Sjálfstæðisflokksins um andstöðu við einstök atriði í stjórnarsáttmálanum og við ákvarðanir sem teknar hafa verið við ríkisstjórnarborðið. „Þetta er veikleiki samstarfsins. Satt best að segja er fremur óvanalegt að sjá brotalamir af þessu tagi í forystuflokki í ríkisstjórnar.“
Viðreisn og Björt framtíð hafi því átt erindi í þetta stjórnarsamstarf. Mesta hættan fyrir þessa tvo flokka í framhaldinu er sú að í því breiða samtali sem lagt hefur verið upp með á nokkrum sviðum nái Sjálfstæðisflokkurinn saman með þeim tveimur flokkum [Framsókn og Vinstri grænum] í minnihlutanum sem mest eru á móti breytingum. Á næstu mánuðum eða misserum komast þeir flokkar tæpast hjá því að svara hvert hugur þeirra stefnir í þeim efnum.“