Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ríkisstjórnarfund í Hvíta húsinu í gær. Á fundinum notuðu ráðherrarnir ekki tækifærið til þess að ræða deilurnar sem stjórn Trumps stendur í við, að því er virðist, allt og alla.
Á fundinum fékk hver ráðherra í ríkisstjórninni orðið fyrir framan myndavélar fjölmiðla og hlóðu forsetann lofi og þökkuðu persónulega fyrir tækifæri til þess að starfa með honum.
Fjölmiðlafólki var leyft að fylgjast með fundinum fyrstu tíu mínúturnar eða svo, á meðan varaforsetinn, starfsmannastjóri Hvíta hússins og ráðherrar í ríkisstjórninni fengu tækifæri til að tala.
Fjölmiðlar vestanhafs nýttu gærkvöldið og daginn í dag til þess að fjalla um þessar upphafsmínutur ríkisstjórnarfundarins. Flestir eru sammála um að þetta hafi í besta falli verið óeðlilegt upphaf ríkisstjórnarfundar í Hvíta húsinu.
Chuck Schumer, leiðtogi demókrata á bandaríska þinginu, gerði hins vegar mikið grín að fundinum og kallaði til eigin fundar með sínu helsta samstarfsfólki, og fékk það til þess að hrósa sér.