Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að kostnaður vegna móttöku á hælisleitendum hafi farið langt fram úr áætlunum á undanförnum árum. Hann segir að í febrúar menn séð það strax „að þegar talað var um 500 hælisleitendur á þessu ári vor komnir 700 en núna eru menn farnir að tala um að þetta verði á annað þúsund og kannski meira og kostnaðurinn sem ég hef heyrt er 3-6 milljarðar, eða ein til tvö Dýrafjarðargöng á ári.“ Þetta kom fram í viðtali við Ásmund á Útvarpi Sögu í gær.
Samkvæmt tölum sem birtar eru á vef Útlendingastofnunar sóttu 1.132 um vernd hérlendis á árinu 2016. Af þeim var alls 111 manns veitt vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi til að dvelja á Íslandi. Öðrum var annað hvort synjað, þeir endursendir, veitt vernd í öðru ríki eða drógu til baka umsóknir sínar. Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2017 sóttu alls 370 manns um vernd. Af þeim hafa 52 fengið vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi. Í desember 2016 voru 820 umsækjendur hérlendis annað hvort þjónustaðir af sveitarfélögum eða Útlendingastofnun. Þeim hefur farið hratt fækkandi og 1. júní voru þeir 545 talsins.
Bar kostnað við hælisleitendur saman við skurðstofu í Vestmannaeyjum
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ásmundur gerir athugasemd við kostnað ríkisins vegna hælisleitenda. Í september í fyrra gagnrýndi hann að fjárframlög til Útlendingastofnunar hafi aukist vegna fjölgunar hælisleitenda hér á landi og fjölgun hælisleitenda. „Hælisleitendur er annar flokkur flóttamanna sem stöðugt sækir til landsins og er að mestu samansettur af ungum karlmönnum sem koma hingað vegabréfalausir. Í nýsamþykktum lögum um útlendinga eru skilaboð Alþingis skýr til þessa hóps og eru að skila sér,“ sagði Ásmundur og talaði svo um mikla fjölgun hælisleitenda hér á landi.
Hann sagði dvalargjöld hælisleitenda sem ekki fái úrlausn sinna mála vera 234 þúsund krónur á mánuði á meðan lágmarksellilífeyrir væri 212 þúsund krónur. Þegar hann sagði þetta hrópaði Helgi Hrafn Gunnarsson, þáverandi þingmaður Pírata, „skammastu þín“ á Ásmund.
Ásmundur sagði 1200 milljónir samtals fara til Útlendingastofnunar á ári vegna hælisleitenda. „Það sama og myndi kosta að reka skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum en þar er enga skurðstofu eða fæðingarhjálp að hafa,“ sagði Ásmundur. Hann gagnrýndi að lokum útlendingalögin nýju og sagði Íslendinga ekki læra af reynslu annarra ríkja.
Spurði hvort múslimar væru bakgrunnsskoðaðir
Ásmundur hefur líka vakið athygli fyrir ummæli sín um múslima og ógnina sem hann telur Íslandi stafa af hryðjuverkamönnum. Í janúar 2015 varpaði hann fram þeirri spurningu í Facebook-stöðuuppfærslu, nokkrum dögum eftir skotárásina á ritstjórnarskrifstofur franska teiknimyndablaðsins Charlie Hebdo, hvort þeir 1.500 múslimar sem búi á Íslandi hafi verið athugaðir og hvort einhverjir úr þeirra hópi hafi fengið þjálfun hjá samtökum sem skilgreind hafa verið sem hryðjuverkaógn. Ásmundur spurði ennfremur hvort innanríkisráðuneytið hefði gert raðstafanir vegna þessara ógna.
Stöðuuppfærsla Ásmundar, og fréttaflutningur af henni sem fylgdi í kjölfarið vakti mikla athygli og skömmu síðar viðurkenndi Ásmundur í viðtali við Kastljós að hann þekkti samfélag múslima „nánast ekki neitt“. Múslimar hefðu hins vegar sjálfir áhyggjur af því að „múslimistar“ vilji koma til Íslands.
Um mánuði síðar, í febrúar 2015, var umræða um störf þingsins á Alþingi. Þar steig Ásmundur í pontu og lýsti yfir vonbrigðum sínum með samfélagsumræðuna um þá hættu sem steðji að hinum frjálsa heimi og þjóðfélögum vegna fjölgunar á árásum einstaklinga og hvers konar öfgahópa.
Orðrétt sagði Ásmundur: „Hér á landi á engin slík umræða sér stað og það er spurning hve lengi við ætlum að skila auðu í umræðu um öryggi íbúanna. Hér hafast menn öðruvísi að. Þeir sem vekja athygli á hættunni er steðjar að nágrönnum okkar eru skotnir niður og ataðir auri í samfélagsumræðunni sem aldrei kemst á það stig að ræða um málefnið. [...] Tjáningarfrelsi er fótum troðið en það virðist oft og tíðum aðeins vera fyrir útvalda. Ég þakka hæstvirtum innanríkisráðherra Ólöfu Nordal fyrir að hefja umræðuna um hvort taka skuli upp forvirkar rannsóknarheimildir hér á landi. Tökum umræðuna í samfélaginu um þá ógn sem steðjar að í nágrannalöndum okkar. Við getum ekki tekið þá áhættu að hún berist ekki hingað“.
Í mars 2015 var Ásmundur annar aðalgesta sjónvarpsþáttarins Eyjunnar, sem þá var á dagskrá Stöðvar 2. Þar ræddi hann aftur um að ógnin af hryðjuverkamönnum væri staðreynd og sagði: „Núna eru þeir ekki aðeins komnir til Danmerkur, þeir eru að spígspora hér í bænum þessir menn. Við getum mætt þeim á götu núna. Ég held að miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið við þessu, þessi gríðarlegu viðbrögð sem ég fékk við þessum málflutningi mínum, þakklæti frá fólkinu í landinu, segir mér það að við þurfum að taka þessa umræðu eins og innanríkisráðherrann er byrjuð að tala um forvirkar rannsóknarheimildir og við þurfum auðvitað að gera þetta æsingalaust“.