Heildarskuldir ríkisins voru 69,5% af áætlaðri landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi 2017. Hlutfallið er það lægsta frá hruni, en það hefur stöðugt lækkað frá fjórða ársfjórðungi 2014.
Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu sem komu út fyrr í dag. Þar voru fjármál hins opinbera einnig rædd, en hreinar tekjur ríkisins á fyrsta ársfjórðungi 2017 námu 17,6 milljörðum króna. Eru það einnig hæstu ársfjórðungstölur þess efnis frá hruni, ef litið er fram hjá stöðugleikaframlagi frá kröfuhöfum föllnu fjármálafyrirtækjanna í fyrra.
Stöðugleikaframlagið skekkir myndina töluvert, en vegna þeirra mældust hreinar tekjur á fyrsta ársfjórðungi árið 2016 um 384,3 milljarðar króna. Án þeirra hefðu hreinar tekjur ríkisins hins vegar verið neikvæðar um 13 milljarða króna, eins og sjá má á mynd að ofan.
Tekjuafkoman er 3,1% af landsframleiðslu ársfjórðungsins. Til samanburðar voru hreinar tekjur ríkissjóðs neikvæðar um 2,5% af landsframleiðslu síðasta árs, ef stöðugleikaframlag er ekki talið með.
Samhliða bættri afkomu ríkissjóðs hefur hlutfall skulda af landsframleiðslu lækkað stöðugt frá árslokum 2014. Nú er það komið niður í 69,5% , sem er lægsta skuldahlutfall frá hruni. Hæst var í skuldahlutfallið í tæpum 110% árið 2011.