Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, líkir rannsókn löggæsluyfirvalda á málefnum sínum við nornaveiðar og segir slæmt fólk sem er ósamkvæmt sjálfu sér standa fyrir henni.
The Washington Post greindi frá því að Robert S. Mueller, sérstakur saksóknari, fari nú með rannsókn á tengslum Rússa við framboð Donalds Trump síðasta haust. Samkvæmt heimildum blaðsins miðar rannsóknin að meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum og hvort Trump hafi á einhvern hátt hindrað framgang réttvísinnar.
Trump lýsti því yfir á Twitter að bandarískur almenningur væri nú að fylgjast með „mestu nornaveiðum í bandarískri stjórmálasögu“.
Fram til þessa hefur ekki verið litið svo á að Trump sjálfur sé til rannsóknar en James Comey, sem Trump rak úr forstjórastóli FBI, sagði eiðsvarinn frammi fyrir þingnefnd að hann vissi ekki til þess að Trump sjálfur hefði verið til rannsóknar. Staðan hefði ekki verið þannig, þegar hann hætti sem forstjóri.
The Washington Post vitnar til embættismanna sem blaðið hefur fengið upplýsingar um rannsóknina frá.
Trump heldur því enn fram að tengsl Rússa við forsetaframboðið sé uppspuni „falskra fréttamiðla“ og að ásakanir um að hann hafi hindrað framgang réttvísinnar sé enn eitt útspilið til þess að koma höggi á hann.
Pútín hæðist að Bandaríkjunum og býður Comey hæli
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, var í vikulegu fjölmiðlaspjalli sínu í morgun þar sem hann gerði meðal annars grín að bandaríska stjórnkerfinu. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
„Hver er munurinn á yfirmanni FBI og [Edward] Snowden?“ velti Pútín fyrir sér. Hann sagði að sú staðreynd að James Comey, fyrrum forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, hafi lekið leynilegum upplýsingum til fjölmiðla geri hann að uppljóstrara, rétt eins og Snowden sem þiggur nú pólitískt hæli í Rússlandi.
„Ef hann [Comey] verður sóttur til saka vegna þessa, þá erum við tilbúin til þess að veita honum pólitískt hæli líka,“ sagði Pútín.