Smásölurisinn Amazon tilkynnti um kaup á öðrum smásölurisa, Whole Foods, í dag en kaupverðið er 13,7 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 1.370 milljörðum króna.
Verðmiðinn á Amazon nemur nú 460 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 50 þúsund milljörðum króna.
Verðmiðinn er tæplega 30 prósent hærri en markaðsverðið segir til um. Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon, segir að með þessum kaupum muni Amazon styrkja sig enn meira sölu á matvælum, en gríðarlegur vöxtur hefur einkennt starfsemi fyrirtækis á svæði netverslunar með mat, á undanförnum misserum.
Hann segir að milljónir manna þekkja fyrirtækið fyrir góðan og heilbrigðan lífrænan mat, og að það verði kappkostað að halda því góða starfi áfram sem unnið hefur verið hjá Whole Foods í meira en fjóra áratugi.
Gert er ráð fyrir að yfirtakan muni endanlega klárast á seinni hluta ársins. Whole Foods verður þá orðin hluti af Amazon verslunarkeðjunni, og má gera ráð fyrir að netverslun fyrirtækisins muni framþróast hratt á næstu misserum.
John Mackey, forstjóri Whole Foods, segir að með þessum kaupum séu hluthafar að fá gott verð fyrir hlutabréf sín, og að með þessum móti sé tryggt að besta mögulega nýsköpun í verslun muni eiga sér stað hjá Whole Foods, og viðskiptavinirnir muni hagnast á því.
Whole Foods rekur 460 verslanir í Bandaríkjunum, Kanada og Bretlandi, en heimamarkaður fyrirtækisins er í Bandaríkjunum. Verslanirnar eru markaðssettar fyrir fólk með mikinn kaupmátt, og eru staðsetningar verslana miðaðar við þá stöðu.
Amazon hefur á undanförnum misserum sýnt á spilin í tækniþróun sinni, þegar kemur að smásöluverslun, og er gert ráð fyrir að Amazon Go verslanir þess muni skjóta upp kollinum á næstunni víða um Bandaríkin.
Í dag er aðeins ein Amazon Go verslun, við höfuðstöðvar Amazon í Seattle. Í versluninni verða engir starfsmenn eða búðarkassar, og munu viðskiptin fara fram í gegnum snjallsímann. Myndavélatækni og gervigreind sér til þess að viðskiptavinurinn getur gengið inn í búðina beint að vörunni, og tekið hana með sér út, án þess að stoppa.