Seinkun verkefnis gæti orðið kostnaðarsöm fyrir skattgreiðendur

Reiknisstofa bankanna lagðist í ársbyrjun 2015 í verkefni um endurnýjun grunnkerfa fyrir Íslandsbanka og Landsbankann. Verkefnið er ári á eftir áætlun, en ríkisbankarnir bera hlut af kostnaði vegna þess.

Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna
Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna
Auglýsing

Verk­efni Reikni­stofu bank­anna um end­ur­nýjun grunn­kerfa hjá Íslands­banka og Lands­bank­anum er enn ólok­ið, en því átti að ljúka fyrir ári síð­an. Búist er við því að sein­kunin verði kostn­að­ar­söm fyrir neyt­end­ur, en hann leggst að hluta til á bank­ana. 

Í jan­úar 2015 samdi Reikni­stofa bank­anna um end­ur­nýjun helstu grunn­kerfa sinna við hug­bún­að­ar­fyr­ir­tæk­ið Sopra Bank­ing Software. Mark­mið sam­starfs­ins var að auka hag­ræði og sparnað við end­ur­nýjun á inn­lána- og greiðslu­kerfi Reikni­stofn­unar. Lands­bank­inn og Íslands­banki sömdu báðir um notkun nýju kerf­anna, en Arion banki ákvað að sitja hjá fyrst um sinn. 

Til stóð að verk­efnið myndi taka 18 mán­uði, en því er ekki enn lok­ið. Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans hafði það einnig komið til umræðu á aðal­fundi félags­ins hversu langan tíma verk­efnið hafi tek­ið. Í sam­tali við Kjarn­ann segir Frið­rik Þór Snorra­son, for­stjóri RB, standa til að verk­efnið muni klár­ast í sept­em­ber eða októ­ber á þessu ári. Hins vegar bendir hann á að meg­in­mark­miðið muni nást, núver­andi lausnir í grunn­kerfi bank­ans muni fær­ast í nútím­ann. 

Auglýsing

Frið­rik Þór segir að verk­efnið hafi dreg­ist vegna ýmissa ástæðna. Verið sé að inn­leiða kerfi í tveimur bönk­um, sam­ræma þurfi þjón­ustu­skil á gagna­lagi og ákveðið var að fara var­lega af stað og starfa í sátt við Sam­keppn­is­eft­ir­lit­ið. Einnig nefnir Frið­rik að íslenska greiðslu­miðl­un­ar­kerfið hafi valdið nokkrum töf­um. Þar sem Íslend­ingar eru með greiðslu­miðlun í raun­tíma sé flókn­ara og tíma­frekara að inn­leiða nýtt kerfi, og líkir hann aðgerð­inni við véla­skipti á fljúg­andi flug­vél. 

Aðspurður um hver beri kostn­að­inn af þess­ari seinkun segir Frið­rik að náðst hafi sátt milli Reikni­stofu, Sopra Bank­ing og rík­is­bank­anna tveggja um að deila kostn­að­inum á milli sín. Ekki er vitað hversu hár kostn­að­ur­inn er vegna seink­un­ar, en Frið­rik segir hann vera trún­að­ar­mál. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiInnlent