Amazon kaupir Whole Foods fyrir 1.370 milljarða

Smásölurisinn Amazon heldur áfram að stækka. Tilkynnt var um það í dag, að hann væri að kaupa smásölukeðjuna Whole Foods.

Bezos
Auglýsing

Smá­söluris­inn Amazon til­kynnti um kaup á öðrum smá­sölurisa, Whole Foods, í dag en kaup­verðið er 13,7 millj­arðar Banda­ríkja­dala, eða sem nemur um 1.370 millj­örðum króna.

Verð­mið­inn á Amazon nemur nú 460 millj­örðum Banda­ríkja­dala, eða sem nemur tæp­lega 50 þús­und millj­örðum króna. Verð­mið­inn er tæp­lega 30 pró­sent hærri en mark­aðs­verðið segir til um. Jeff Bezos, stofn­andi og for­stjóri Amazon, segir að með þessum kaupum muni Amazon styrkja sig enn meira sölu á mat­væl­um, en gríð­ar­legur vöxtur hefur ein­kennt starf­semi fyr­ir­tækis á svæði net­versl­unar með mat, á und­an­förnum miss­er­um. 

Hann segir að millj­ónir manna þekkja fyr­ir­tækið fyrir góðan og heil­brigðan líf­rænan mat, og að það verði kapp­kostað að halda því góða starfi áfram sem unnið hefur verið hjá Whole Foods í meira en fjóra ára­tug­i. 

Auglýsing

Gert er ráð fyrir að yfir­takan muni end­an­lega klár­ast á seinni hluta árs­ins. Whole Foods verður þá orðin hluti af Amazon versl­un­ar­keðj­unni, og má gera ráð fyrir að net­verslun fyr­ir­tæk­is­ins muni fram­þró­ast hratt á næstu miss­er­um. John Mackey, for­stjóri Whole Foods, segir að með þessum kaupum séu hlut­hafar að fá gott verð fyrir hluta­bréf sín, og að með þessum móti sé tryggt að besta mögu­lega nýsköpun í verslun muni eiga sér stað hjá Whole Foods, og við­skipta­vin­irnir muni hagn­ast á því. 

Whole Foods rekur 460 versl­anir í Banda­ríkj­un­um, Kanada og Bret­landi, en heima­mark­aður fyr­ir­tæk­is­ins er í Banda­ríkj­un­um. Versl­an­irnar eru mark­aðs­settar fyrir fólk með mik­inn kaup­mátt, og eru stað­setn­ingar versl­ana mið­aðar við þá stöðu.Amazon hefur á und­an­förnum miss­erum sýnt á spilin í tækni­þróun sinni, þegar kemur að smá­sölu­versl­un, og er gert ráð fyrir að Amazon Go versl­anir þess muni skjóta upp koll­inum á næst­unni víða um Banda­rík­in. 

Í dag er aðeins ein Amazon Go versl­un, við höf­uð­stöðvar Amazon í Seattle. Í versl­un­inni verða engir starfs­menn eða búð­ar­kass­ar, og munu við­skiptin fara fram í gegnum snjall­sím­ann. Mynda­véla­tækni og gervi­greind sér til þess að við­skipta­vin­ur­inn getur gengið inn í búð­ina beint að vör­unni, og tekið hana með sér út, án þess að stoppa.

Meira úr sama flokkiErlent