Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, segir að kvartanir hafi borist nefndinni vegna meintrar hatursorðræðu í fjölmiðlum. Ekki sé þó um mörg mál að ræða. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Ekki er tilgreint hvers eðlis þau mál sem komið hafa inn á borð nefndarinnar eru.
Þar segir Elfa Ýr enn fremur að fjölmiðlanefnd hafi heimild til að birta álit í málum sem snúa að hatursorðræðu en munur sé á þeirri grein fjölmiðlalaga og ákvæði um hatursorðræðu í almennum hegningarlögum. „Þessi grein kemur í raun úr hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins, sem þarf að innleiða í öllum EES-ríkjum.
Tilskipunin er öryggisventill ef einhver fjölmiðill er með kerfisbundnum hætti að miðla hatursáróðri. Tilskipunin er hryggjarstykkið í þessum fjölmiðlalögum. Það er gerð sú krafa að öll EES-ríkin séu með virkt eftirlit sjálfstæðra aðila sem eru ótengdir ráðuneytunum. Þeir skuli hafa eftirlit með því að farið sé að þessum ákvæðum í öllum EES-ríkjununum og að tekið sé á þeim með samræmdum hætti, þannig að lyktir mála séu svipaðar í öllum EES-ríkjunum.“
Í fyrrahaust stóðu fjölmiðlanefnd og Mannréttindaskrifstofa Íslands fyrir málstofu um hatursorðræðu, á Fundi fólksins í Norræna húsinu. Hægt er að lesa samantekt fjölmiðlanefndar af málstofunni hér.