Rúmlega 146 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í maí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 22.000 fleiri en í maí á síðasta ári. Fjölgunin nemur 17,8% milli ára.
Fjölgunin í maímánuði var minni en aðra mánuði yfirstandandi árs. Þannig fjölgaði ferðamönnum um 75,3% milli ára í janúar, 47,3% í febrúar 44,4% í mars og 61,8% í apríl.
Frá áramótum hafa um 752 þúsund erlendir ferðamenn farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 46,5% aukning miðað við sama tímabil árið á undan.
Spár gera ráð fyrir því að ferðamönnum muni fjölga umtalsvert á þessu ári, miðað við í fyrra. Þá komu 1,8 milljónir ferðamanna til landsins en gert er ráð fyrir að þeir verði 2,3 milljónir á þessu ári.