Ómar Svavarsson, framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar, hefur sagt starfi sínu lausu hjá Sjóvá en honum hefur boðist starfstilboð á öðrum vettvangi. Þetta kemur fram í tilkynningu Sjóvár til kauphallarinnar.
Ómar tók við starfi framkvæmdastjóra hjá Sjóvá í janúar 2015. Ómar starfaði sem framkvæmdastjóri sölu og þjónustusviðs Vodafone frá árinu 2005 og sem forstjóri frá 2009, en hann starfaði hjá Sjóvá frá 1995 til 2005.
Ómar mun láta af störfum á næstu dögum. Málefni sölu og ráðgjafar munu tímabundið heyra undir Hermann Björnsson, forstjóra Sjóvá, að því er fram kemur í tilkynningu.
Gengi bréfa í Sjóvá hefur hækkað umtalsvert á þessu ári, eða um tæplega 40 prósent. Markaðsvirði félagsins er nú 27,7 milljarðar króna og nam hagnaður félagsins í fyrra 2,7 milljörðum króna.