Vinnuhópur sem skipaður var af Ólöfu Nordal, fyrrverandi innanríkisráðherra, birti skýrslu á föstudaginn um breytingar á rekstrarfyrirkomulagi innanlandsflugvalla. Í henni segir að gera eigi stærstu flugvellina fjárhagslega sjálfstæða þannig að notendagjöld flugvallanna endurspegli í auknum mæli raunkostnað við rekstur þeirra.
Núverandi rekstrarfyrirkomulag á innanlandsflugvöllum er byggt á því að innanlandsflugvellirnir eru fjármagnaðir að stærstum hluta með þjónustusamningi við ríkið. Vinnuhópurinn leggur til í skýrslunni að hætt verði við þá samninga en að fjármagn ríkisins renni að mestu í sértækari styrki.
Þar sem þjónustugjöld farþega séu ekki beintengd kostnaði á innanlandsflugvöllum geri notendur þeirra oft ýmsar kostnaðarsamar kröfur til flugvallanna, samkvæmt skýrslunni. Með því að byggja verðskrá á raunkostnaði væri hins vegar hægt að auka kostnaðarvitund flugrekenda og bæta hagkvæmni í rekstri þeirra.
Í stað þjónustusamnings ríkis við flugvallarekanda yrðu einungis valdar flugleiðir eða ákveðnir farþegar styrktir með sértækri niðurgreiðslu á flugmiðum. Val á umræddum flugleiðum eða farþegum væri svo í höndum ráðuneytisins eftir því hvar væri mest þörf á að halda uppi styrkjum.
Ekki er litið á breytingarnar sem niðurskurðaraðgerðir, búist er við því að framlag ríkisins til flugsamganga yrði óbreytt. Hins vegar yrði kostnaðarbyrði innanlandsflugvallanna færð yfir á notendur og rekstur þeirra gerður sjálfbærari í auknum mæli. Samkvæmt vinnuhópnum munu breytingarnar tryggja almenningi aðgang að flugsamgöngum á „verði sem hann er tilbúinn að greiða.“
Viðraðar eru hugmyndir að halda áfram niðurgreiðslum á íslenskum farþegum en að erlendir ferðamenn borgi fullt verð. Samkvæmt skýrslunni sé það „rökrétt“ í ljósi þess að ferðamönnum fjölgi mikið og vilji til að auka gjaldtöku af þeim eykst.
Með því að gera rekstur flugvalla sjálfbæran er opnað á þann möguleika að aðrir fái áhuga á að koma að rekstrinum og taka þátt í að byggja hann upp, bæði einkaaðilar og sveitarfélög. Einhverjir gætu séð hag í að taka þátt í rekstri flugvalla á sínu svæði til að hafa beina aðkomu að uppbyggingu samgöngukerfa og ferðamannaþjónustu.
Skýrslan var tilbúin snemma í maí en ekki birt á vef ráðuneytisins fyrr en síðastliðinn föstudag. Vigdís Häsler, aðstoðarmaður samgönguráðherra, segir seinkunina vera hluta af eðlilegum umþóttunartíma sem ráðuneytið gefi sér til þess að fara yfir skýrsluna.