Stjórn Kviku hefur gert kauptilboð upp á 2.560 milljónir króna í allt hlutafé Virðingar. Ef af kaupunum verður er stefnt að því að sameina félögin. Tilboðið gerir ráð fyrir að greitt verði fyrir hlutinn með reiðufé. Kauptilboðið gildir til kl. 16:00 þann 30. júní næstkomandi. Ef samþykki að lágmarki 90 prósent hluthafa Virðingar fæst fyrir þann tíma er stefnt að boðun hluthafafundar í Kviku um miðjan júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku.
Þar segir enn fremur að kaupin séu háð ákveðnum skilyrðum, þar á meðal samþykki hluthafa beggja félaga og samþykkis eftirlitsstofnana.
Stjórn Virðingar hefur móttekið kauptilboðið og ákveðið að beina því til hluthafa félagsins.
Skammt er síðan að Virðing undirritaði samning um kaup á ÖLDU sjóðum. Verði tilboði Kviku til hluthafa Virðingar hf. tekið, er sá samningur háður endanlegu samþykki Kviku og hluthafa Öldu.
Hafa reynt áður
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem reynt er að sameina Virðingu og Kviku. Stjórnir Virðingar og Kviku undirrituðu í nóvember 2016 viljayfirlýsingu um að undirbúa samruna félaganna tveggja undir nafni Kviku. Í aðdraganda sameiningar átti að lækka eigið fé Kviku um 600 milljónir króna og greiða lækkunina til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku áttu eftir samruna að eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut. Viðræðurnar gengu hins vegar erfiðlega og í lok mars var tilkynnt að stjórnir Kviku og Virðingar hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna.
Kvika banki hagnaðist um tæpa tvo milljarða króna í fyrra eftir skatta og arðsemi eiginfjár hjá bankanum var 34,7 prósent. Eignir Kviku drógust saman á árinu um þrjú prósent og voru 59,5 milljarðar króna um síðustu áramót. Eigið fé bankans var 7,3 milljarðar króna og jókst á árinu þrátt fyrir að hlutafé hafi verið lækkað um milljarð króna á fyrri hluta síðasta árs. Eiginfjárhlutfallið var 20,6 prósent í lok árs 2016.
Miklar væringar hafa verið í kringum bankann að undanförnu, sérstaklega eftir að Vátryggingafélag Íslands (VÍS) keypti stóran hlut í honum í byrjun árs. VÍS er nú stærsti einstaki Kviku með 24,89 prósent hlut. Einkafjárfestar, með Svanhildi Nönnu Vigfúsdóttur í broddi fylkingar, hafa náð tökum innan tryggingafélagsins og hún er nú stjórnarformaður þess. Félag í eigu Svanhildar Nönnu er einnig fjórði stærsti hluthafi Kviku með átta prósent eignarhlut.
Eigandi Virðingar ráðinn forstjóri Kviku
Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi og stjórnandi hjá Virðingu, var ráðinn forstjóri Kviku banka í byrjun maí. Hann tók við starfinu af Sigurði Atla Jónssyni sem sagði starfi sínu lausu skömmu áður. Þá var Marinó Örn Tryggvason ráðinn aðstoðarforstjóri bankans.
Ármann hafði starfað hjá Virðingu í tvö ár, síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar. Ármann er ásamt meðfjárfestum sínum fimmti stærsti eigandi Virðingar í gegnum félagið MBA Capital ehf., en það á 4,66 prósent hlut í fyrirtækinu.