Alls eiga 43 prósent þeirra 57 þúsund lífeyrisþega sem fengu greitt tekjutengdar greiðslur á síðasta ári frá Tryggingastofnun ríkisins rétt á inneign upp á samtals tvo milljarða króna vegna vanáætlaðra greiðslna á síðasta ári. 44 prósent þeirra sem fengu greiðslur fengu hins vegar ofgreitt, samtals 3,4 milljarða króna. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Tryggingastofnunar.
Þar segir að til að tryggja að lífeyrisþegar fái réttar greiðslur í samræmi við raunverulegar tekjur þeirra á árinu 2016 séu greiðslur endurreiknaðar miðað við tekjuupplýsingar í staðfestum skattframtölum.
Samtals var endurreiknað fyrir 57 þúsund lífeyrisþega sem fengu greidda 86,5 milljarða króna í tekjutengdar greiðslur á síðasta ári. Þar af voru 36 þúsund ellilífeyrisþegar og 21 þúsund örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar. Í fréttinni segir: „niðurstaða endurreikningsins leiðir í ljós að 43% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur á síðasta ári eiga inneign hjá TR upp á samtals 2 milljarða króna en 44% hafa fengið ofgreitt, samtals 3,4 milljarða króna. Meðalupphæð inneigna sem lífeyrisþegar eiga hjá TR er 84 þúsund krónur en meðalskuld þeirra sem hafa fengið ofgreitt er 135 þúsund krónur.“
Tryggingastofnun segir að hún muni gera upp við þá lífeyrisþega sem eiga inneign með eingreiðslu þann 1. júlí næstkomandi. „Innheimta skulda sem orðið hafa til vegna ofgreiðslu á síðasta ári hefst hins vegar þann 1. september næstkomandi. Miðað er við að skuldin verði greidd á 12 mánuðum en ef það reynist lífeyrisþegum íþyngjandi er hægt að semja um lengri tíma.“