Birta lífeyrissjóður, sem er stærsti eigandi Virðingar með 14,58 prósent hlut, fengi 365 milljónir króna í sinn hlut, ef kauptilboð Kviku í hluta félagsins yrði samþykkt, en það hljóðar upp á 2,5 milljarð króna.
KP Capital ehf., sem er í eigu Kristínar Pétursdóttur, stjórnarformanns Virðingar, fengi 224 milljónir króna í sinn hlut, og MBA Capital ehf., sem er í eigu Ármanns Þorvaldssonar forstjóra Kviku og meðfjárfesta, fengi 116 milljónir í sinn hlut ef kaupin ganga eftir.
Stjórn Kviku hefur gert kauptilboð upp á 2.560 milljónir króna í allt hlutafé Virðingar, en frá þessu var greint í gær í tilkynningu frá Kviku. Ef af kaupunum verður er stefnt að því að sameina félögin. Tilboðið gerir ráð fyrir að greitt verði fyrir hlutinn með reiðufé. Kauptilboðið gildir til kl. 16:00 þann 30. júní næstkomandi. Ef samþykki að lágmarki 90 prósent hluthafa Virðingar fæst fyrir þann tíma er stefnt að boðun hluthafafundar í Kviku um miðjan júlí.
Enn fremur segir að kaupin séu háð ákveðnum skilyrðum, þar á meðal samþykki hluthafa beggja félaga og samþykkis eftirlitsstofnana.
Skammt er síðan að Virðing undirritaði samning um kaup á ÖLDU sjóðum. Verði tilboði Kviku til hluthafa Virðingar hf. tekið, er sá samningur háður endanlegu samþykki Kviku og hluthafa Öldu.
Sé litið til annarra stórra hluthafa Virðingar þá mun Lífeyrissjóður verslunarmanna fá 207 milljónir króna í sinn hlut, gangi kaupin eftir, og Vilhjálmur Þorsteinsson, í gegnum félögin Miðeind ehf. og Meson Holding SA, samtals um 193 milljónir króna.