Í Brexit eru fólgnir meiri hagsmunir en í Icesave-málinu fyrir íslenskan efnahag, sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), á fundi SFS um Brexit í síðustu viku. Fjallað er um fundinn í Fiskifréttum.
11 prósent af vöru- og þjónustuviðskiptum Íslands eru við Bretland og er megnið af þeim viðskiptum fólgin í verslun með fisk og fiskafurðir eða 69 prósent. Sjávarútvegurinn á Íslandi hefur þess vegna enn meiri hagsmuna að gæta en aðrir geirar. 18 prósent af útfluttum sjávarafurðum frá Íslandi fara til Bretlands.
Samningaviðræður milli Bretlands og Evrópusambandsins hófust formlega í vikunni með fundi aðalsamningamanna beggja aðila. Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní í fyrra að ganga úr Evrópusambandinu.
Bretland hefur verið aðili að ESB síðan árið 1973 og hefur verið aðili að sameiginlegum markaði Evrópu. Ísland er einnig aðili að þeim markaði í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn). Auk gamals fríverslunarsamnings síðan 1972, sem Ísland er aðili að í gegnum EFTA-samstarfið, er EES-samningurinn eini ramminn um viðskipti Íslands og Bretland.
Útganga Bretlands úr ESB getur þess vegna haft mikil áhrif á viðskipti milli Íslands og Bretlands. Íslenskt efnahagslíf þess vegna mikilla hagsmuna að gæta í samningaviðræðum ESB og Bretlands.
Margir óvissuþættir og Brexit bætist við
Haft er eftir Heiðrúnu Lind í Fiskifréttum að mikilvægt sé að íslensk stjórnvöld leggi til fjármuni til þess að fjárfesta í framtíðarhagsmunum Íslendinga. „Um er að ræða meiri hagsmuni en þá sem voru undir í Icesave-málinu og í því máli má með varfærnum hætti telja að kostnaður við sérfræðiráðgjöf hafi farið yfir 500 milljónir króna. Til að rétt sé á hagsmunum haldið frá upphafi, þurfa stjórnvöld því að leggja til fjármuni – fjárfestingu í framtíðarhagsmunum Íslendinga,“ segir Heiðrún Lind.
Á breskum markaði með sjávarafurðir er Ísland stærsti birginn, á undan Kínverjum. Íslenskar sjávarafurðir eru mjög verðmætar í Bretlandi vegna þess hversu ferska vöru íslenskum útflytjendum tekst að bjóða upp á.
Íslensk sjávarútflutningsfyrirtæki dreifa afurðum til Evrópu í gegnum stórskipahöfn í Bretlandi. Afurðirnar eru svo keyrðar á áfangastað.
„Sjávarútvegurinn býr auðvitað við óteljandi óvissuþætti – fiskistofnarnir, sviptingar á mörkuðum, gengi krónunnar, veðrið, olíuverðið og kannski það sem rétt er að nefna, en ég ætti vafalaust ekki að gera, stjórnmálamenn. Brexit er enn ein áhættan sem nú er að raungerast og þá er spurningin hvernig við ætlum að takast á við þessar aðstæður. Þetta er hreint ótrúlega dýrmætur tími að undirbúa okkar málflutning gagnvart Bretum og hvernig við ætlum að vernda okkar hagsmuni við þær breytingar sem munu klárlega verða,“ er haft eftir Heiðrúnu Lind.