Reimar Pétursson hrl., formaður Lögmannafélags Íslands, segir í grein í Lögmannablaðinu, að mikilvægt sé að „ötullega að því að lágmarka þanna skaða“ sem orðinn er vegna þess hvernig staðið var að skipan 15 dómara við Landsrétt. Hann segir jafnframt mikilvægt að „nýi dómstóllinn fái almennilega viðspyrnu þegar hann tekur til starfa og að dómarar þar gjaldi sem minnst fyrir þá annmarka sem urðu við skipun þeirra.“
Eins og kunnugt er gerði Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, fjórar breytingar á lista dómnefndar sem mat hæfi umsækjenda um skipan dómara við Landsrétt. Dómarar voru að lokum, eftir harðar pólitískar deilur, skipaðir Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.
Tveir umsækjendur, sem voru á lista dómnefndar yfir 15 hæfustu umsækjendur, hafa þegar höfðað mál, en það er Ástráður Haraldsson hrl. og Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. Málið er þegar komið inn á borð dómstóla, eftir að flýtimeðferð var samþykkt. Kjarninn birti gögn um málið, meðan það var til umfjöllunar í þinginu, þar á meðal lista yfir umsækjendur í hæfisröð dómnefndar, og hvernig einstaka þættir voru metnir.
Í grein Reimars kemur fram að ráðherra hafi, samkvæmt lögum, átt að velja hæfasta umsækjandann og byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum og fullnægjandi rannsókn.
„Ráðherra mistókst. Sjónarmið ráðherra var að gefa dómarareynslu aukið vægi. Niðurstöðu ráðherra skorti rökrétt samhengi við það sjónarmið. Ráðherra var skylt að leggja tillögur sínar um skipun landsréttardómara fyrir Alþingi til samþykktar. Jafnframt var ráðherra skylt að afla heimildar Alþingis til að víkja frá umsögn dómnefndarinnar. Í þessu fyrirkomulagi fólst ekki heimild ráðherra til að beita geðþótta til tillögugerðina. Þvert á móti fólst í þessu sérstök vörn gegn geðþóttaákvörðun hans. Alþingi virðist hafa skort skilning á þessu. Formenn tveggja stjórnarflokka upplýstu til dæmis eftir afgreiðslu þingsins að þeirra þingflokkar hafi tilkynnt ráðherra þegar umsögnin lá fyrir að niðurstaða nefndarinnar „færi ekki í gegn“. Áður yrði að leiðrétta „kynjahalla“. Þessi skilyrðislausa krafa þingflokkanna stenst illa lög. Notkun kynjasjónarmiða til að skáka út hæfari umsækjendum er nefnilega andstæð lögum og reyndar einnig stjórnarskrá. Því gat aldrei komið til álita að hafna niðurstöðu nefndarinnar á þessum forsendum nema fyrir lægi vönduð rannsókn sem staðfesti að til staðar væru jafnhæfir umsækjendur af mismunandi kyni.“