Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að íslensk stjórnvöld séu komin í samband við húsnæðisútleigusíðuna Airbnb og vonast sé til að hægt verði að gera samning við fyrirtækið. „Við vonumst til þess að þau geti séð um að innheimta fyrir okkur ákveðin gjöld um leið og fólk pantar, til dæmis gistináttaskatt. Þá myndum við fá upplýsingar um hverjir það eru sem eru í þessari starfsemi. Og skattarnir myndu skila sér. Það skiptir mjög miklu máli. Og þá verður samkeppnin heldur ekki ójöfn.“
Ný löggjöf um útleigu heimila og fasteigna tók gildi um síðustu áramót. Með henni var fjöldi daga sem fasteign getur verið í útleigu takmarkaður við 90 daga, sé ekki sótt um sérstakt rekstrarleyfi. Auk þess mátti einungis hafa tekjur upp að tveimur milljónum króna af slíkri leigu án þess að sækja um rekstrarleyfi. Frá því að löggjöfin tók gildi hafa hins vegar sárafáir sótt um rekstrarleyfi, og fyrir liggur að einungis brotabrot þeirra sem stunda útleigu í gegnum síður eins og Airbnb hafa skráð sig.
Til þess að fá skráningarnúmer þurftu einstaklingar sem ætluðu að leigja út íbúðina sína eða hluta af heimili sínu að uppfylla ákveðnar kröfur um brunavarnir, ástand og húsakynnin verða að vera samþykkt sem íbúð. Sérstakt árgjald að upphæð 8.000 krónur þarf einnig að greiða fyrir skráninguna.
Þegar fyrir lá að langflestir útleigjendur voru ekki að skrá sig þrátt fyrir lagabreytinguna var ákveðið að fella niður kröfu um starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd þegar fólk leigir út íbúðir eða sumarbústaði í heimagistingu. Breytingin tekur gildi 1. júlí næstkomandi.
Fyrir liggur að þúsundir íbúða á Íslandi eru notaðar í heimagistingu, annað hvort að hluta eða alfarið. Í Morgunblaðinu í maí var því haldið fram að um ein milljón óskráðra gistinátta hafi verið í Reykjavík í fyrra og að þær hafi getað skilað 10-14 milljörðum króna í tekjur.