Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það komi vel til greina að grípa til aðgerða við að þrýsta íslenskum lífeyrissjóðum í frekari erlendar fjárfestingar ef þeir hreyfi sig ekki sjálfir í þá átt. „Almennt talað er betra að þeir sjái sér hag í því sjálfir og það er skynsamlegt fyrir þá að fara í meiri fjárfestingar erlendis út frá áhættudreifingarsjónarmiði,“ segir Benedikt.
Lífeyrissjóðirnir gátu nánast ekkert fjárfest erlendis eftir að höft voru sett á hérlendis í lok árs 2008. Fyrir vikið eru þeir gríðarlega umsvifamiklir í íslensku atvinnulífi og eiga m.a., beint og óbeint, yfir helming skráðra hlutabréfa. Sjóðirnir byrjuðu að fá undanþágur á árinu 2015 til að fjárfesta takmarkaðar upphæðir utan hafta og eftir að höft voru losuð að mestu fyrr á þessu ári þá geta lífeyrissjóðir fjárfest mun meira erlendis en þeir hafa gert hingað til.
Í byrjun árs 2017 var hlutfall eigna þeirra erlendis 22,6 prósent að meðaltali en samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands hafa þær dregist saman á undanförnum mánuðum. Sá samdráttur er þó nær örugglega einvörðungu vegna styrkingu krónunnar.
Sérfræðingar hafa bent á að hlutfall erlendra eigna lífeyrisjóðakerfisins ætti að vera á bilinu 35-45 prósent út frá áhættudreifingarsjónarmiði. Auk þess er ljóst að það myndi vinna gegn frekari styrkingu krónunnar ef sjóðirnir myndu fjárfesta meira erlendis.
Benedikt segist telja að hlutfall þeirra í erlendum eignum ætti að vera nálægt 50 prósent, og því sé langt í land að það sé ásættanlegt. „Hlutfall þeirra í t.d. innlendum hlutabréfum er orðið óþægilegt félagslega. Ég held að það væri heilbrigt að þeir færu meira út og að almenningur færi að huga meira að því að dreifa sinni áhættu með gjaldeyrisreikningum. Ég er ekki að tala um að menn ættu að fara með peninga til Panama, heldur að opna slíka reikninga í íslenskum bönkum.“