Ítalska bankakerfið stendur á brauðfótum og hefur ítalska ríkið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að koma í veg fyrir bankahrun í landinu. Seðlabanki Evrópu, með Ítalann Mario Draghi sem æðsta stjórnanda, varaði við því að tveir bankar, Banca Popolare di Vicenza og Veneto Banca, stæðu illa og væru við það að falla.
Samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC hefur ítalska ríkið þurft að reiða fram 5,2 milljarða evra, eða sem nemur um 608 milljörðum króna, miðað við núverandi gengi.
Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítalíu, sagði aðgerðirnar nauðsynlegar til að tryggja öryggi innstæðueigenda og einnig senda rétt skilaboð um að ítalska ríkið myndi styðja við bankakerfi landsins, ef þess þyrfti.
Talið er að ítalska bankakerfið sé ennþá með mikil vandamál óleyst, en slæm lán innan þess, það er lán sem líklegt er að tapist, séu upp á um 350 milljarða evra, eða sem nemur um 41 þúsund milljörðum krónum. Það er upphæð sem nemur um þriðjungi af öllum slæmum lánum í Evrópu, samkvæmt mati Seðlabanka Evrópu.
Ítalía er stærsta hagkerfi Suður-Evrópu með 59,8 milljónir íbúa.