Íslenska ríkið hefur tíma fram til mánudagsins 3. júlí til að skila greinargerð í Landsréttarmálinu, en Kjartan Bjarni Björgvinsson er dómari í því. Hann var áður starfsmaður Umboðsmanns Alþingis og var meðal annars í Rannsóknarnefnd Alþingis um sölu á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum.
Eins og kunnugt er hafa tveir af þeim fjórum umsækjendum, sem voru á meðal 15 hæfustu umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt að mati sérstakrar dómnefndar en voru ekki skipaðir að lokum, stefnt Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og íslenska ríkinu, þar sem framhjá þeim var gengið við skipan dómara.
Þetta eru Ástráður Haraldsson hrl., sem var nú 14 á lista dómnefndarinnar miðað við heildareinkunn, og Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl., sem var númer 12. Þeir voru báðir með svipaða heildareinkunn, Jóhannes Rúnar 5,6 og Ástráður 5,5. Eftst á lista dómnefndarinnar voru Davíð Þór Björgvinsson, með einkunnina 7,3, Sigurður Tómas Magnússon með einkunnina 6,7 og Ragnheiður Harðardóttir með einkunnina 6,6.
Einkunnargjöf nefndarinnar var birt á vef Kjarnans, þegar málið var til meðferðar á Alþingi, og varð mikill pólitískur titringur vegna málsins, og var frávísunartillaga meðal annars felld með minnsta mögulega mun, 31-30, en tveir þingmenn, Brynjar Níelsson Sjálfstæðisflokki og Svandís Svavarsdóttir Vinstri grænum, tóku ekki þátt í að greiða atkvæði í málinu vegna tengsla við umsækjendur um starf dómara.
Með stefnunni, sem birt hefur verið í heild sinni á vef Kjarnans, krefjast sækjendur þess að ákvörðunin í málinu verði ógild, og að skaðabótaréttur verði viðurkenndur.
Í stefnunni segir meðal annars að krafan um ógildingu byggi á því að Sigríður hafi við undirbúning „hinnar umdeildu ákvörðunar bæði brotið gegn málsmeðferðar- og efnisreglum stjórnsýsluréttarins.“ Meginreglan um skipan í dómarastarf byggi á faglegu hæfnismati dómnefndar og öll frávik „frá því mati þurfi að byggja á sérstökum rökstuðningi, brýnum og gagnsæjum ástæðum, sem og vandaðri meðferð til undirbúnings ákvörðun. Geðþótti ráðherra og sjónarmið valin að hentugleikum í hvert sinn mega aldrei ráða. Tryggt þarf að vera að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið og málsmeðferð þarf að vera til þess falllin að tryggja að svo verði,“ eins og orðrétt segir í stefnu.
Þau fimmtán sem nú eru dómarar við Landsrétt eru Aðalsteinn E. Jónasson, Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson, Hervör Lilja Þorvaldsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Jón Finnbjörnsson, Kristbjörg Stephensen, Oddný Mjöll Arnardóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Sigurður Tómas Magnússon, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Þorgeir Ingi Njálsson.
Þegar hefur verið samþykkt að málið fái flýtimeðferð, en ólíklegt en sökum fría í júlí og ágúst má gera ráð fyrir að niðurstaða komi ekki í málinu fyrir í héraði fyrr en í haust. Lex lögmannsstofa fer með málið fyrir hönd ríkisins, en hefð er fyrir því að ríkislögmaður reki mál sem þessi fyrir hönd ríkisins. Í þessu tilfelli er ríkislögmaður þó vanhæfur sökum tengsla við kærandann og þess að starfsmenn innan embættisins voru í hópi umsækjenda um stöðu Landsréttardómara.
Reimar Pétursson hrl., formaður Lögmannafélags Íslands, gagnrýnir ákvörðun ráðherra harðlega í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins og telur hana tæpast í samræmi við lög. Þá segir hann formenn tveggja stjórnarflokka hafi misskilið jafnréttislög, þegar þeir tjáðu sig um málið. Hann hvetur í grein sinni til þess að sem bestur friður verði skapaður um málefni Landréttar.