Mikil óánægja er innan Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með ákvarðanir kjararáðs að undanförnu, og miklar hækkanir stjórnenda hjá hinu opinbera, í sumum tilfellum um tæplega 30 prósent, sem ráðið hefur ákvarðað.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í viðtali við Viðskiptablaðið að kjararáð sé núna komið í þá stöðu að leiða launaþróun í landinu með þeim ákvörðunum sem ráðið hefur koma fram með að undanförnu. Þetta segir Gylfi að ráðið eigi ekki að gera. „Þetta er eitthvað sem enginn skilur og enginn sættir sig við. Kjararáð er nú mótandi um launaþróun í landinu. Bæði upphæð launa, því þetta eru miklu hærri upphæðir en við þekkjum á almennum markaði svo ég tali nú ekki í samningum hjá ríkinu, og líka í breytingum. Það segir reyndar í lögum að kjararáð megi ekki vera launaleiðandi en það gerir það samt. Það er ljóst að þingmenn og ráðherrar hafa verið mjög sáttir við ákvarðanir kjararáðs því þeir hafa ekkert aðhafst,“ segir Gylfi í viðtalinu.
Halldór Benjamín Þorgbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir í samtali við Kjarnann að mikil andstaða sé innan SA með þá þróun sem hefur verið í úrskurðum kjararáðs að undanförnu. Hún sé skaðleg fyrir komandi kjaraviðræður og algjörlega úr takti við hlutverk ráðsins.
Allt frá því kjararáð birti úrskurð um laun ráðamanna þjóðarinnar, á kjördag 29. október í fyrra, hefur verið mikill titringur á vinnumarkaði. Strax í kjölfar þess að úrskurðurinn lá fyrir afsalaði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sér hækkuninni, en þingmenn eða ráðherrar gerðu það ekki.
Í sameiginlegri ályktun framkvæmdastjórna Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs, frá 1. Nóvember í fyrra, var Alþingi hvatt til þess að hafna alfarið hækkunum og þær sagðar grafa undan trausti fyrir komandi kjaraviðræður. „Í lögum um kjararáð er skýrt kveðið á um að ráðið skuli ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Þetta ákvæði hefur ráðið að engu haft í úrskurði um þingfararkaup og í úrskurðum um laun embættismanna undanfarið ár.
Ákvörðun kjararáðs um launahækkanir þingmanna og ráðherra er í engu samhengi við almenna þróun á vinnumarkaði, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Standi ákvörðunin er vinnumarkaðurinn settur í fullkomið uppnám með tilheyrandi tjóni fyrir almenning og atvinnulíf.“
Samkvæmt heimildum Kjarnans er þungt hljóð í mörgum stjórnarmönnum Samtaka atvinnulífsins vegna þeirrar stöðu sem kjararáð hefur skapað á vinnumarkaði með úrskurðum sínum. Þeir telja þá hafa sett bæði verkalýðshreyfinguna og SA í vonda stöðu, og raunar einnig stéttarfélög opinberra starfsmanna.
Ekkert hafi í reynd breyst, frá því í október í fyrra, og staðan orðið heldur snúnari ef eitthvað er. Ólíkir hópar á vinnumarkaði horfi nú fyrst og fremst til launaþróunar æðstu ráðamanna hjá hinu opinbera, þegar kemur að markmiðum í komandi kjarasamningum.