Breskar verksmiðjur nutu ekki góðs af aukinni eftirspurn í Evrópu og Asíu í júní, þrátt fyrir veikingu pundsins. Þetta kemur fram á vef Reuters.
Aukning framleiðslumagns verksmiðja á evrusvæðinu síðustu vikur var sú mesta í sex ár. Sömuleiðis jókst framleiðsla í mörgum Asíuríkjum samhliða aukinni eftirspurn á rafvörum á alþjóðavísu.
Vöxturinn náði hins vegar ekki í jafnmiklum mæli til Bretlands þar sem eftirspurninni er haldið niðri af tveimur þáttum, vaxandi verðbólguvæntingum og hægari launavexti, samkvæmt könnun sem Reuters lagði fram. Báðir þættir eru taldir vera afleiðingar væntrar úrsagnar Breta úr Evrópusambandinu.
Niðurstöður könnunarinnar bentu til þess að áhrif veikingar á gengi pundsins hafi ekki skilað sér að fullu leyti, en búist var við því að gengislækkun myndi gera útflutningsgreinar Breta samkeppnishæfari. Sú hefur ekki verið raunin, en fréttastofa Reuter telur að þessar óvæntu niðurstöður gætu frestað vaxtahækkun hjá seðlabanka Englands (Bank of England).
Óttast er að verðbólga muni fara vaxandi í Bretlandi á næstunni í kjölfar Brexit, en seðlabankinn hefur gefið út vísbendingar þess efnis að hann muni hækka stýrivexti sína til þess að halda henni í skefjum.
Seðlabankastjóri Englands, Mark Carney, sagðist ætla að bíða og sjá hvernig hagkerfið muni þróast í kjölfar útgönguviðræðna Breta við Evrópusambandið, þá sérstaklega hvort fjárfesting og útflutningur gæti vegið á móti lítilli neyslu.