Stefano M. Stoppani hefur tekið við sem nýr forstjóri Creditinfo Group. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins.
Stefano tekur við af Reyni Grétarssyni, en Reynir mun áfram verða starfandi stjórnarformaður Creditinfo og stærsti einstaki eigandi þess. Í tilkynningunni segir að Stefano hafi 20 ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði á alþjóðavísu, en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu SIMAH í Saudi Arabíu. Einnig hefur hann reynslu úr öðrum fyrirtækjum, meðal annars CRIF og World Bank Group.
Stefano er með BA gráðu í stjórnmálafræði og MBA gráðu úr háskólanum í Bologna á Ítalíu. Hann er einnig með meistaragráðu í þróunar- og alþjóðamálum frá London School of Economics.
„Ég hef þekkt Stefano í langan tíma og fylgst vel með starfsferli hans sem er virkilega glæsilegur. Hann hefur verið búsettur í 10 löndum og unnið í fjórum heimsálfum þar sem hann hefur unnið að uppbyggingu alþjóðlegra fyrirtækja. Það er mikill fengur fyrir Creditinfo að fá svona reynslumikinn stjórnenda til okkar," segir Reynir Grétarsson, stjórnarformaður Creditinfo Group í fréttatilkynningu.
„Það eru spennandi hlutir framundan og það er mikill heiður að taka þátt í viðskiptaþróun með stjórnarformanni og alþjóðlegu teymi stjórnenda víðs vegar um heim í uppbyggingu félagsins," segir nýr forstjóri fyrirtækisins, Stefano M. Stoppani.