Markaðsvirði Haga hélt áfram að hrynja niður í gær, og lækkaði markaðsvirði félagsins um 2,52 prósent. Verðmiðinn á þessum smásölurisa á Íslandi, sem rekur meðal annars verslanir undir merkjum Bónus og Hagkaup, er nú 47,8 milljarðar króna, og hefur hann lækkað um 13 milljarða frá því Costco opnaði vöruhús sitt, 23. maí síðastliðinn.
Á rúmlega fimm vikum hefur markaðsvirði félagsins lækkað úr genginu 55 í 41,5. Líklegt verður að teljast að áhrfin sem Costco hefur haft á markaðinn á Íslandi hafi dregið úr áhuga fjárfesta á hlutabréfum í Högum.
Viðtökurnar sem Costco hefur fengið á íslenskum hafa verið með ólíkindum, en innan við mánuði eftir að bandaríski smásölurisinn opnaði vöruhús sitt voru meira en 50 þúsund einstaklingar og fyrirtæki komin með Costco aðildarkort.
Markaðsvirði Costco nemur nú um 70 milljörðum Bandríkjadala, sem er upphæð sem nemur ríflega sjöföldu heildarvirði íslenska hlutabréfamarkaðarins.